Með snarræði og góðri samvinnu tókst starfsmönnum slökkviliðsins í samráði við sóttvarnalækni að útbúa sótthreinsirými gagngert fyrir COVID-sjúkraflutninga. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir smit á milli sjúklinga sem fluttir eru með sjúkrabíl og til að fyrirbyggja smit til okkar starfsmanna. Í rýminu er hægt að þvo bíla, búnað og mannskap á milli flutninga, en þar er bílaþvottastöð, sturta, þvottavélar fyrir fatnað, biðrými og svefnaðstaða fyrir starfsmenn.

Ef sjúkraflutningamenn fara í útkall þar sem grunur leikur á að sjúklingurinn sé smitaður af COVID- veirunni fara þeir í nauðsynlegan hlífðarfatnað, sinna útkallinu og fara svo í sóttvarnarrýmið áður en þeir sinna næsta útkalli.  Ef slíkar upplýsingar koma ekki fram þegar þeir eru boðaðir á staðinn og þeir ná ekki að fara í hlífðarfatnað þurfa þeir að bíða í sóttvarnarýminu í einhverjar klukkustundir þar til vitað er hvort sjúklingurinn er smitaður. Ef hann reynist smitaður fara þeir í sóttkví og geta ekki sinnt starfinu í 14 daga. Þess vegna er svo mikilvægt að tilgreina þegar hringt er á sjúkrabíl ef grunur leikur á COVIT-smiti svo við missum mannskapinn okkar ekki úr vinnu.