Um okkur

Eigendur, stjórn og skipurit

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) varð til 1. júní 2000 við sameiningu Slökkviliðs Reykjavíkur og Slökkviliðs Hafnarfjarðar. Stofnendur og eigendur SHS eru sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarneskaupstaður.

Stjórn SHS er skipuð framkvæmdastjórum aðildarsveitarfélaganna sex eða fulltrúum þeirra og jafnmörgum til vara. Fulltrúi fjölmennasta sveitarfélagsins, borgarstjórinn í Reykjavík, er formaður stjórnar. Slökkviliðsstjóri situr alla fundi stjórnarinnar en helstu verkefni hennar eru:

 • að hafa eftirlit með rekstri byggðasamlagsins og sjá um að lögum, reglugerðum, samþykktum og markaðri stefnu sé fylgt
 • að samþykkja áætlun um rekstur, fjárfestingu og fjármál sem síðan er lögð fyrir aðildarsveitarfélögin
 • að samþykkja fjárhagsáætlun og starfsáætlun þar sem markmiðum í rekstri og þjónustustigi er lýst

Starfsemi SHS skiptist í þrjú meginsvið; forvarnasvið, viðbúnaðarsvið og aðgerðasvið. Auk þess er skrifstofa slökkviliðsstjóra og stoðeiningar sem sjá um fjármál, mannauð og fasteignir.

Slökkviliðsstjóri er æðsti yfirmaður liðsins og stýrir daglegum rekstri í samræmi við starfs- og fjárhagsáætlun sem stjórn byggðasamlagsins hefur samþykkt.

Forvarnasvið

Á forvarnasviði starfa 14 manns ýmist í skoðunardeild eða tæknideild. Sviðsstjóri forvarnasviðs heyrir beint undir slökkviliðsstjóra og ber ábyrgð á daglegum rekstri sviðsins og stefnumótun. Skilgreint hlutverk forvarnasviðs er að tryggja sem best öryggi íbúanna gegn eldsvoða og afleiðingum hans. Helstu verkefni þess eru:

 • Eldvarnaeftirlit
 • Fræðsla og ráðgjöf
 • Skoðanir fjölbýlishúsa
 • Eigið eftirlit fyrirtækja
 • Umsögn um leyfisskylda starfsemi
 • Þróun sviðsins og starfseminnar

Eftirlitsdeildin sinnti vel yfir 3.000 eldvarnaskoðunum á árinu 2012, framkvæmdi rúmlega 200 loka- og öryggisúttektir og heimsótti tæplega 130 staði vegna veitingahúsaeftirlits. Bundnar eru vonir við að jákvæður taktur í fyrirbyggjandi verkefnum skili sér í færri útköllum til lengri tíma litið.

Tæknideildin sinnir sérhæfðum verkefnum á sviði stjórnunar, brunatækni og opinberrar stjórnsýslu. Í því felst m.a. samstarf við byggingarfulltrúa og eftirlit með brunahönnun mannvirkja, eftirlit með flóknum byggingum, og ráðgjöf í því sambandi.

Viðbúnaðarsvið

Viðbúnaðarsvið vinnur náið með samhæfingarmiðstöð Almannavarna við undirbúning og samræmingu aðgerða ef hættuástand skapast. Á sviðinu er einnig unnið að áhættumati og áhættugreiningu fyrir höfuðborgarsvæðið vegna hugsanlegrar vá.

Aðgerðasvið

Á aðgerðasviði starfa um 120 manns sem sinna slökkvistarfi og sjúkraflutningum, svokallað varðlið SHS. Auk þess eru slökkviliðsmenn í hlutastarfi á Kjalarnesi og samningur í gildi við björgunarsveitina Kjöl sem þar er staðsett um að veita aðstoð ef þörf krefur. Slökkviliðsstjóri er yfir aðgerðasviði en undir hann heyra tveir deildarstjórar sem bera ábyrgð á daglegum rekstri sviðsins og stefnumótun, þ.e. deildarstjóri slökkvistarfs og deildarstjóri sjúkraflutninga.
Skilgreint hlutverk aðgerðasviðs er að vernda líf, heilsu, umhverfi og eignir samfélagsins þegar hætta steðjar að. Helstu verkefni þess eru:

 • Slökkvistarf
 • Sjúkraflutningar
 • Viðbrögð við mengunarslysum
 • Köfun
 • Fjallabjörgun
 • Verðmætabjörgun

Stoðeiningar

Stoðeiningar SHS sinna daglegri þjónustu við eigendur, stjórnendur og starfsmenn slökkviliðsins, Almannavarnir höfuðborgarsvæðisins, SHS fasteignir ehf. og Rekstrarfélag leigjenda í Skógarhlíð 14, sem og þjónustu við ytri viðskiptavini. Helstu verkefni skrifstofu, mannauðs og fjármála felast í almennri aðstoð og upplýsingagjöf, en starfsfólk þar annast jafnframt bókhald, launavinnslu, innheimtu og greiðslu reikninga, eftirlit með innkaupum, uppgjör og áætlanagerð. Skrifstofan annast jafnframt ýmsa greiningarvinnu og hefur umsjón með tölvu- og tæknimálum.

Hlutverk og markmið SHS

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnir slökkvistarfi á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt lögum um brunavarnir nr. 75/2000. Einnig sinnir það aðstoð við önnur slökkvilið í landinu þegar eftir því er leitað, ásamt því að sinna eldum í skipum við land og á hafi úti þegar svo ber við. Slökkvistarfið er fjölbreytt og getur verið allt frá litlum bruna í ruslatunnu, yfir í stórbruna sem krefst þátttöku allra stöðva SHS og jafnvel aukamannskaps sem kallaður er út af frívakt.

Þannig hefur SHS margþættu hlutverki að gegna við almenning, fyrirtæki og stofnanir á starfssvæðinu en hlutverk þess felst fyrst og fremst í því að veita gæðaþjónustu við fyrstu viðbrögð og forvarnir til að vernda líf, heilsu, umhverfi og eignir borgarbúa.

Helstu verkefni liðsins eru:

 • Slökkvistörf
 • Sjúkraflutningar
 • Forvarnir og eldvarnaeftirlit
 • Viðbrögð við mengunaróhöppum
 • Almannavarnir
 • Verðmætabjörgun
 • Björgun fólks úr sjó og vötnum
 • Björgun fólks utan alfaraleiða
 • Tilfallandi aðstoð við almenning

SHS sér um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningi við velferðarráðuneytið og hefur gert árum saman. Samningur er einnig í gildi milli SHS og Faxaflóahafna sf. um aðgerðir vegna hugsanlegra mengunaróhappa á hafnarsvæði Faxaflóahafna sf. Í samningnum felst að slökkviliðið fer með stjórnun aðgerða þegar mengunaróhöpp verða. Búnaður Faxaflóahafna sf., sem ætlaður er til nota í mengunarslysum, er í vörslu slökkviliðsins auk þess sem slökkviliðið annast undirbúning og skipulagningu nauðsynlegra æfinga.

Markmið SHS er að sinna forvörnum og útkallsþjónustu á þjónustusvæðinu eins og best verður á kosið í eftirfarandi forgangsröð:

 • að bjarga lífi
 • að draga úr afleiðingum umhverfisslysa
 • að bjarga eignum

Til að ná þessum markmiðum er starfsemi liðsins skipt í fjóra grundvallarþætti:

 • að fyrirbyggja
 • að undirbúa
 • að grípa inn í atburðarás
 • að endurbæta starfsaðferðir

Allir starfsmenn bera sameiginlega ábyrgð á að markmiðið nái fram að ganga, sama hvar þeir eru staddir í skipulagi. Rík áhersla er lögð á að starfsfólk SHS hafi til umráða þau tæki og búnað sem nauðsynlegur er hverju sinni til að hægt sé að uppfylla hlutverk og markmið félagsins.

Stefnur

Starfsmannastefna

Stefna Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í mannauðsmálum er að hjá liðinu starfi vel menntað og þjálfað starfsfólk með skýrt hlutverk og markmið. Áhersla er lögð á samkennd innan liðsins og að starfsmenn hafi frelsi til frumkvæðis sem byggist á þekkingu, þjálfun og reynslu.

Í stefnunni felst að:

 • Ráða til starfa hæfa og metnaðarfulla einstaklinga sem eru reiðubúnir að takast á við krefjandi verkefni í breytilegu umhverfi.
 • Bjóða upp á verkefni þar sem hæfileikar hvers og eins fá notið sín.
 • Veita starfsþróun og þjálfun í samræmi við kröfur um gæði starfs og þjónustustig.
 • Starfa í anda jafnræðis og jafnréttis.
 • Leggja áherslu á heilbrigði starfsmanna og öryggi í starfi.
 • Leitast við að bjóða uppá fjölskylduvænt umhverfi að því marki sem hægt er starfseminnar vegna.
 • Efla samkennd og stuðla að góðum liðsanda.

Við leggjum jafnframt mikla áherslu á góð samskipti og upplýsingagjöf til starfsmanna og stuðlum að góðum starfsanda með því að sýna samstarfsmönnum okkar skilning, virðingu og hjálpsemi. Við tilheyrum öll sama liðinu.

Menntastefna

Skilyrði fyrir því að SHS geti uppfyllt hlutverk sitt og markmið er vel menntað og þjálfað starfsfólk. Endurmenntun og þjálfun er því nauðsynlegur hluti af starfinu okkar og stuðlar að góðu líkamlegu formi og andlegu jafnvægi. Við berum sjálf ábyrgð á okkar endurmenntun með því að:

 • Fylgjast með nýjungum og tileinka okkur þær jafnóðum.
 • Sýna frumkvæði í skipulagningu símenntunar okkar og endurskoðun þjálfunaráætlunar.
 • Miðla þekkingu þeirri sem við hljótum við endurmenntun til annarra starfsmanna með óformlegum eða formlegum hætti.
 • Vera reiðubúin að sækja frekara nám á vegum SHS ef á þarf að halda.

Óskir um endurmenntun eru metnar með það í huga að námið nýtist starfinu sem best, henti hagsmunum heildarinnar og sé í samræmi við stefnu SHS.

Jafnréttisstefna

Jafnréttisstefna SHS er sett á grundvelli laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og er ætlað að stuðla að jafnrétti innan SHS og samþættingu kynja- og jafnfréttissjónarmiða í starfi og stefnumótun stofnunarinnar. Stefnan er einnig sett í þeim tilgangi að mannauður SHS njóti sín í starfi og nýtist sem best.

Mannauðsstjóri hefur eftirlit með framkvæmd og endurskoðun jafnréttisstefnunnar og skal hún metin og endurskoðuð á tveggja ára fresti. Ábendingum og tillögum varðandi stefnuna skal koma á framfæri við mannauðsstjóra.
Í stefnunni felst að:

 • Allir starfsmenn SHS hafa jafnan rétt innan stofnunarinnar, óháð kyni, aldri, trúarskoðun, stjórnmálaskoðun, þjóðerni og litarhætti. Mismunun er með öllu óheimil í hvaða formi sem hún birtist.
 • Starfsmenn SHS eru metnir á eigin forsendum og njóta sömu tækifæra.
 • Jafnréttissjónarmið skulu metin til jafns við önnur sjónarmið við ráðningar og tilfærslur í starfi.
 • Launajafnrétti skal ríkja hjá stofnuninni og jafnræðis gætt við kjarabreytingar.
 • Gætt skal að jafnréttissjónarmiðum við ákvarðanir um endurmenntun og námsleyfi.
 • Kynferðisleg áreitni, sem og önnur áreitni eða einelti, er ekki liðin hjá SHS og ber að tilkynna strax til mannauðsstjóra.
 • Stuðla skal að því að sem mest samræmi ríki milli vinnu og einkalífs hjá starfsfólki óháð kynferði, en með hliðsjón af starfsemi SHS.

Tillögum að endurbótum á sviði jafnréttismála og öðrum athugasemdum sem tengjast þeim málum skal koma á framfæri við mannauðsstjóra.

Lög og reglugerðir

Á hverju starfssvæði slökkviliðs skal liggja fyrir brunavarnaáætlun sem fengið hefur umsögn Mannvirkjastofnunar og samþykki sveitarstjórnar. Áætlunina skal endurskoða á fimm ára fresti. Leiðarljós brunavarnaáætlunar er markmið laga um brunavarnir nr. 75/2000, sem er að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir með því að tryggja fullnægjandi eldvarnaeftirlit og viðbúnað við eldsvoðum og mengunaróhöppum á landi.

Markmið brunavarnaáætlunar er því eins og segir í 1. mgr. 13.gr. að tryggja að slökkvilið sé þannig mannað, skipulagt, útbúið tækjum, menntað og þjálfað að það ráði við þau verkefni sem því eru falin með lögum þessum og reglugerðum samkvæmt þeim. Jafnframt er eitt af meginmarkmiðunum með brunavarnaáætlun að sveitarfélög skilgreini hvernig þau nái að uppfylla tilgreint þjónustustig.  Sjá: Brunavarnaáætlun 2010