Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) vill ráða starfsfólk í sumarafleysingar á tímabilinu 15. maí til 15. september 2020, með möguleika á styttra ráðningartímabili innan þess tíma. Um er að ræða vaktavinnu, 8-12 tíma vaktir á öllum tímum sólarhrings.

Þegar sumarstarfsmenn hefja störf verða þeir að vera búnir að ljúka grunnmenntun (EMT-B) í sjúkraflutningaskólanum (www.ems.is).

Hér fyrir neðan eru ítarlegar upplýsingar um hæfniskröfur í sumarstörfin og umsóknarferlið í heild sinni. Umsóknarfrestur er til 16. febrúar. Ef spurningar vakna hafðu samband við Ingibjörgu Óðinsdóttur mannauðsstjóra (ingibjorgo@shs.is) eða Elías Níelsson íþróttaþjálfara SHS (eliasn@shs.is).

Hæfniskröfur í sumarstarf:
 • Hafa náð 20 ára aldri við upphaf starfs.
 • Hafa lokið að lágmarki 60 ein. á framhaldsskólastigi*
 • Hafa réttindi til sjúkraflutninga (EMT-B) við upphaf starfs.
 • Hafa réttindi til að aka fólksbíl.
 • Mjög góð íslenskukunnátta skilyrði (bæði tal- og ritmál).
 • Færni í samskiptum, frumkvæði og geta til að vinna undir álagi.
 • Hafa góða líkamsburði og bæði andlegt og líkamlegt heilbrigði.
 • Almenn reglusemi og háttvísi áskilin.

* Æskilegt er að hafa lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi, sem eru menntunarskilyrði til framtíðarstarfa.

Öllum umsóknum þarf að fylgja rafrænt eintak af:
 • Prófskírteini sem sýnir að viðkomandi hafi lokið 60 einingum á framhaldsskólastigi.
 • Ökuskírteini; ljósrit af báðum hliðum sem sýnir ökuréttindi (bakhlið) og mynd af viðkomandi (framhlið).
 • Nýleg og góð/skýr passamynd.
 • Ferilskrá.
Öllum umsóknum þarf að fylgja frumrit/pappírseintak* af:
 • Læknisvottorð sem staðfestir almennt heilbrigði umsækjanda. Má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt að nálgast hjá heimilislækni.
 • Sakavottorð** þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt er að nálgast það hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Hlíðarsmára 1 í Kópavogi, ef umsækjendur búa á höfuðborgarsvæðinu, annars hjá viðkomandi sýslumanni.
 • Ökuferilskrá (yfirlit yfir punktastöðu viðkomandi) þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldri en 3 mánaða. Hægt er að fá stimplaða útprentun á ökuferilskrá hjá lögreglunni í því umdæmi sem viðkomandi á lögheimili. Fyrir höfuðborgarsvæðið er það Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 113.

*Ath. Vinsamlega setjið frumritin í lokað umslag merkt ,,Sumarstarf hjá SHS” og skilið því í þjónustuver Björgunarmiðstöðvarinnar í Skógarhlið 14.

**Vegna eðli starfseminnar verður leitað eftir samþykki þeirra sem hljóta ráðningu fyrir því að afla aukinna upplýsinga úr sakaskrá, þ.e. lengra aftur í tímann. 

Inntökuferlið

Inntökuprófin í sumarstarf felast í: hlaupaprófi, styrktarprófi, akstursprófi, læknisskoðun og viðtali. Ekki er boðið uppá nein sjúkrapróf.

Hlaupapróf

Umsækjendur hlaupa 3 km vegalengd innanhúss. Enginn fellur á prófinu en hlaupatími hvers og eins er skráður og hefur áhrif á heildarframmistöðumat í inntökuferlinu. Prófið verður í Kaplakrika föstudaginn 21. febrúar kl. 14:30-15:30.

Umsækjendur mæta í hlaupafatnaði og hlaupa í hollum. Húsið verður opnað 30 mín. áður en fyrsta hollið hleypur og hægt verður að hita upp á staðnum.

Styrktarpróf

Styrktarprófið fer fram í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð 14 frá kl. 14:00 fimmtudaginn 27. febrúar og fram eftir degi.

 • Réttstöðulyftur með réttstöðugrind, 65 kg þyngd, 10 endurtekningar.
 • Liggjandi upphífingar með 20sm upphækkun undir hælum, 7 endurtekningar.
 • Armbeyjur í 12 kg vesti, 7 endurtekningar.
 • Planki á olnboga og tám, 1 mínúta.
Aksturspróf

Ökukennarar prófa umsækjendur í almennum akstri í u.þ.b. 45 mín. þar sem aksturslag, lipurð í umferðinni, reynsla og hæfni er metin, sem og þekking á umferðarreglum. Akstursprófin fara fram dagana 2. og 3. mars frá kl. 15-20.

Læknisviðtal

Umsækjendur fara í viðtal hjá trúnaðarlækni SHS. Viðtölin fara fram eftir hádegi þriðjudaginn 3. mars.

Viðtal

Boðað er í viðtöl þegar öllu ferlinu er lokið og gert ráð fyrir 20-30 mínútum í hvert viðtal. Viðtölin fara fram dagana 4. og 5. mars.

Sækja um starf