Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) mun auglýsa eftir starfsfólki til að sinna slökkvistarfi og sjúkraflutningum í haust sem hefja mun störf í byrjun árs 2020. Um framtíðarstörf er að ræða og þeir sem eru ráðnir fá nauðsynlega menntun og þjálfun til að sinna starfinu, fyrir utan meirapróf sem hver og einn þarf að taka sjálfur. Allir starfsmenn okkar verða að vera reiðubúnir að vinna á vöktum, en vaktakerfið byggist á 8 og 12 tíma vöktum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.

Hér fyrir neðan eru ítarlegar upplýsingar um hæfniskröfur og umsóknarferlið í heild sinni. Ef spurningar vakna er hægt að hafa samband við Ingibjörgu Óðinsdóttur mannauðsstjóra í síma 528 3122 (ingibjorgo@shs.is) eða Elías Níelsson íþróttaþjálfara SHS í síma 528 3000 (eliasn@shs.is).

Hæfniskröfur í framtíðarstarf:

 • Hafa lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi.
 • Hafa aukin ökuréttindi til að stjórna vörubifreið og leigubifreið (C=stór vörubifreið og B-far=leigubifreið). Athugið að ná þarf 21 árs aldri áður en hægt er að taka C-réttindi.
 • Góð íslenskukunnátta nauðsynleg (bæði tal- og ritmál).
 • Færni í samskiptum, frumkvæði og geta til að vinna undir álagi.
 • Hafa góða líkamsburði og gott andlegt / líkamlegt heilbrigði.
 • Hafa góða sjón og heyrn, rétt litaskyn og vera ekki lofthrædd(ur) eða með innilokunarkennd.
 • Almenn reglusemi og háttvísi.

ATH. Nægjanlegt er að hafa lokið meiraprófinu við upphaf starfs. Umsækjendur geta því sótt meiraprófsnámskeið í eigin tíma og á eigin kostnað þegar ráðning liggur fyrir.

Hæfniskröfur í sumarstarf (búið er að ráða í sumarstörf 2019):

 • Hafa lokið að lágmarki 60 ein. á framhaldsskólastigi (en æskilegt að hafa lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi sem eru menntunarskilyrði til framtíðarstarfa)
 • Hafa réttindi til sjúkraflutninga (EMT-B) við upphaf starfs.
 • Góð íslenskukunnátta, bæði tal- og ritmál.
 • Færni í samskiptum, frumkvæði og geta til að vinna undir álagi.  Hafa góða líkamsburði og gott andlegt og líkamlegt heilbrigði.  Almenn reglusemi og háttvísi áskilin.

Öllum umsóknum þarf að fylgja rafrænt eintak af:

 • Ökuskírteini; ljósrit af báðum hliðum ökuskírteinis sem sýnir ökuréttindi (bakhlið) og mynd af viðkomandi (framhlið).
 • Prófskírteini sem sýnir að viðkomandi hafi lokið þeirri menntun sem gerð er krafa um.
 • Nýleg og góð/skýr passamynd.
 • Ferilskrá.

Öllum umsóknum þarf að fylgja frumrit (pappírseintak) af:

Ath. Þetta á eingöngu við þegar SHS hefur auglýst laus störf (ekki ef sótt er um án þess að starfið hafi verið auglýst):

 • Læknisvottorð sem staðfestir almennt heilbrigði umsækjanda. Má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt að nálgast hjá heimilislækni.
 • Sakavottorð þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt er að nálgast það hjá Sýslumanninum í Kópavogi, Hlíðarsmára 1, ef umsækjendur búa á höfuðborgarsvæðinu.
 • Ökuferilskrá (yfirlit yfir punktastöðu viðkomandi) þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldri en 3 mánaða. Hægt er að fá stimplaða útprentun á ökuferilskrá hjá lögreglunni í því umdæmi sem viðkomandi á lögheimili. Fyrir höfuðborgarsvæðið er það Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, skv. upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra.

ATH! Þessi fylgigögn þurfa að vera í frumriti (ekki rafrænt) og mega ekki vera eldri en 3 mánaða. Vinsamlega komið með frumritin í afgreiðsluna í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð 14, í umslagi merkt: ,,Starf hjá SHS”.

Inntökuferlið

Inntökuprófin í framtíðarstarf felast í: hlaupaprófi, könnun á lofthræðslu og innilokunarkennd, skriflegu prófi, þrek- og styrktarprófi, sundprófi, akstursprófi, læknisskoðun og viðtali.

Inntökuprófin í sumarstarf felast í: Þrek- og styrktarprófi, akstursprófi, læknisskoðun og viðtali.

Hlaupapróf

Hlaupa þarf 3 km vegalengd á innan við 13:15 mínútum (bæði konur og karlar) til að ná prófinu. Þeir sem ekki ná að hlaupa vegalengdina á þeim tíma komast ekki áfram í inntökuferlinu. Hægt verður að taka hlaupaprófið þrisvar sinnum og eru allir umsækjendur hvattir til að hlaupa í öll skiptin, eða þar til þeir hafa náð prófinu. Um leið og þeir hafa náð hlaupinu eru þeir komnir inn í inntökuferlið. Ekki er boðið uppá nein sjúkrapróf.

Umsækjendur mæta í hlaupafatnaði og hlaupa í hollum þar sem tekinn er tími á hverjum og einum. Sýna þarf skilríki.

Þrek- og styrktarpróf

 • Réttstöðulyfta, 65 kg stöng, 10 endurtekningar.
 • Öfugar armbeygjur (upphífing í liggjandi stöðu), 6 endurtekningar.
 • Armbeyjur með 10 kg kút á bakinu, 4-6 endurtekningar.
 • Planki á olnboga og tám, 60 sek.
 • Dúkkuburður, 40 m (70 kg dúkka)
 • Göngupróf á bretti. Umsækjendur þurfa að ganga í 8 mínútur á göngubretti klæddir í eldgalla og með 10 kg kút á bakinu, samfellt vegur gallinn með kút í kringum 21 kg. Þeir ganga í 1 mínútu í 4% halla, 1 mínútu í 7% halla og 6 mínútur í 12% halla. Hraðinn er 5,6.

Innilokunarkennd

Umsækjendur eru prófaðir í reykköfun til að kanna hvort þeir þjáist af innilokunarkennd. Þeir eru með reykköfunartæki á bakinu og leysa ýmsar þrautir á æfingabraut með bundið fyrir augu. Nauðsynlegt að mæta í þægilegum fatnaði sem má skemmast, t.d. gömlum íþróttabuxum og bol.

Lofthræðsla

Kannað er hvort umsækjendur geti fylgt fyrirmælum og bregðist rétt við þegar þeir eru staddir í mikilli lofthæð.

Sundpróf

Sundprófið felst í 200m bringusundi, 200m skriðsundi, 25m björgunarsundi og einnig eru köfunaræfingar í lauginni.

Skriflegt próf

Skriflegt próf er lagt fyrir umsækjendur til að kanna almenna þekkingu. Prófið tekur á bilinu 30-60 mínútur og fer fram í slökkvistöðinni í Skógarhlíð.

Aksturspróf

Ökukennarar prófa umsækjendur í almennum akstri í u.þ.b. 45 mín. þar sem aksturslag er metið og þekking á umferðarreglum.

Viðtal

Umsækjendur sem náð hafa inntökuskilyrðum eru boðaðir í viðtal. Gert er ráð fyrir 20-30 mínútum á hvern umsækjanda.

Læknisviðtal

Umsækjendur fara í viðtal hjá trúnaðarlækni SHS.

Sækja um starf