Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) vill ráða starfsfólk í sumarafleysingar á tímabilinu 15. maí til 15. september 2019, með möguleika á styttra ráðningartímabili innan þess tíma. Um er að ræða vaktavinnu, 8-12 tíma vaktir á öllum tímum sólarhrings.

Þegar sumarstarfsmenn hefja störf verða þeir að vera búnir að ljúka grunnmenntun (EMT-B) í sjúkraflutningaskólanum (www.ems.is). Þeir sem fá boð um starf eftir inntökuferlið hafa því möguleika á að afla sér þeirra réttinda fyrir sumarið og tryggja sér sumarstarf. Þetta er gott tækifæri fyrir áhugasama til að kynna sér starf sjúkraflutningamanna fyrir ráðningarferlið árið 2020 þegar næst stendur til að ráða framtíðarstarfsmenn í slökkviliðið.

Inntökuferlið fyrir sumarstörf fer fram í lok nóvember og byrjun desember. Ákvörðun um ráðningu mun liggja fyrir um miðjan desember, með fyrirvara um að þeir sem verða ráðnir afli sér tilskilinna réttinda (EMT-B) fyrir sumarið.

Hér fyrir neðan eru ítarlegar upplýsingar um hæfniskröfur í sumarstörfin og umsóknarferlið í heild sinni. Umsóknarfrestur er til 21. nóvember. Ef spurningar vakna hafðu samband við Ingibjörgu Óðinsdóttur mannauðsstjóra (ingibjorgo@shs.is) eða Elías Níelsson íþróttaþjálfara SHS (eliasn@shs.is).

Hæfniskröfur í sumarstarf:

 • Hafa lokið að lágmarki 60 ein. á framhaldsskólastigi (en æskilegt að hafa lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi sem eru menntunarskilyrði til framtíðarstarfa)
 • Hafa réttindi til sjúkraflutninga (EMT-B) við upphaf starfs.
 • Góð íslenskukunnátta, bæði tal- og ritmál.
 • Færni í samskiptum, frumkvæði og geta til að vinna undir álagi.  Hafa góða líkamsburði og gott andlegt og líkamlegt heilbrigði.  Almenn reglusemi og háttvísi áskilin.

Öllum umsóknum þarf að fylgja rafrænt eintak af:

 • Ökuskírteini; ljósrit af báðum hliðum ökuskírteinis sem sýnir ökuréttindi (bakhlið) og mynd af viðkomandi (framhlið).
 • Prófskírteini sem sýnir að viðkomandi hafi lokið a.m.k. 60 einingum á framhaldsskólastigi.
 • Nýleg og góð/skýr passamynd.
 • Ferilskrá.

Öllum umsóknum þarf að fylgja frumrit (pappírseintak) af:

 • Læknisvottorð sem staðfestir almennt heilbrigði umsækjanda. Má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt að nálgast hjá heimilislækni.
 • Sakavottorð þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt er að nálgast það hjá Sýslumanninum í Kópavogi, Hlíðarsmára 1, ef umsækjendur búa á höfuðborgarsvæðinu.
 • Ökuferilskrá (yfirlit yfir punktastöðu viðkomandi) þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldri en 3 mánaða. Hægt er að fá stimplaða útprentun á ökuferilskrá hjá lögreglunni í því umdæmi sem viðkomandi á lögheimili. Fyrir höfuðborgarsvæðið er það Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, skv. upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra.

ATH! Þessi fylgigögn þurfa að vera í frumriti (ekki rafrænt) og mega ekki vera eldri en 3 mánaða. Vinsamlega komið með frumritin í afgreiðsluna í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð 14, í umslagi merkt: ,,Sumarstarf hjá SHS”.

Nánari upplýsingar

Nægjanlegt er að hafa lokið EMT-B sjúkraflutningaréttindum við upphaf starfs. Þeir umsækjendur sem ekki hafa réttindin þegar þeir sækja um hafa tíma til að afla sér þeirra ef þeir fá starfið. SHS mun aðstoða umsækjendur við það eins og kostur er og kanna með afsláttarkjör fyrir hópinn. Þeir sem hyggjast fara þessa leið þurfa að tilgreina það í athugasemdadálki á rafræna umsóknareyðublaðinu.

Inntökuferlið

Inntökuferlið fyrir sumarstörf hefst um leið og umsóknarfrestur rennur út og felst í hlaupaprófi, þrek- og styrktarprófi, viðtali, akstursprófi og læknisskoðun. Umsækjendur sem uppfylla hæfniskröfur verða boðaðir í fyrsta inntökuprófið og ef þeir ná því verða þeir boðaðir í næstu próf jafnóðum og þeir standast hin.

Hlaupapróf

Umsækjendur hlaupa 3 km vegalengd innanhúss. Tíminn er tekinn og hefur áhrif á heildarniðurstöðuna. Hlaupið fer fram í Kaplakrika laugardaginn 24. nóvember milli kl. 14 og 16.

Þrek- og styrktarpróf

Þrek og styrktarprófin fara fram þriðjudaginn 27. nóvember og fimmtudaginn 29. nóvember á milli kl. 14 og 9. Umsækjendur fá nákvæman tíma þegar þeir mæta í hlaupaprófið.

 • Armbeyjur með 10 kg kút á bakinu, 4-6 endurtekningar.
 • Öfugar armbeygjur (upphífing í liggjandi stöðu), 6 endurtekningar.
 • Réttstöðulyfta, 65 kg stöng, 10 endurtekningar.
 • Planki á olnboga og tám, 60-75 sek.

Viðtal

Þeir umsækjendur sem halda áfram í inntökuferlinu verða boðaðir í viðtöl sem fara fram mánudaginn 3. desember og þriðjudaginn 4. desember. Gert er ráð fyrir að hvert viðtal taki 20 mínútur.

Aksturspróf

Ökukennarar prófa þá umsækjendur sem halda áfram í inntökuferlinu í almennum akstri í u.þ.b. 45 mín. þar sem aksturslag er metið og þekking á umferðarreglum.

Læknisskoðun

Umsækjendur sem fá boð um sumarstarf fara í viðtal hjá trúnaðarlækni SHS.

Vinsamlegast athugið að umsóknarfrestur rann út 21. nóvember 2018 og ekki er hægt að sækja um sumarstörf eftir það.