Viltu taka þátt?

Viltu taka þátt?

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) leitar af og til að fólki til að sinna slökkvistarfi og sjúkraflutningum. Bæði getur verið um framtíðarstörf og sumarstörf að ræða. Allir starfsmenn okkar verða að vera reiðubúnir að vinna á vöktum, en vaktakerfið byggist á 8 og 12 tíma vöktum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.

Sumarfólk er eingöngu ráðið í sjúkraflutninga (ekki slökkviþáttinn) og þá er gerð krafa um að viðkomandi hafi bæði sjúkraflutningaréttindi og meirapróf við upphaf starfs til þess að geta sinnt sjúkraflutningum og ekið sjúkrabíl.

Ef þú hefur áhuga á að starfa hjá SHS máttu gjarnan fylla út atvinnuumsókn neðst á þessari síðu og senda ferilskrá í viðhengi. Athugaðu að ekki er nauðsynlegt að senda öll fylgigögn með umsókninni sem tilgreind eru hér fyrir neðan (s.s. mynd, ljósrit af skírteinum, læknisvottorð, sakavottorð og ökuferilskrá) nema þegar við höfum auglýst laus eftir fólki.

Hér fyrir neðan eru ítarlegar upplýsingar um hæfniskröfur og umsóknarferlið í heild sinni. Athugið að hæfniskröfur og  inntökupróf eru ekki þau sömu fyrir umsækjendur um framtíðarstörf og sumarstörf. Gerð er ríkari krafa til framtíðarmanna um menntun og þeir taka fleiri inntökupróf. Þeir sem eingöngu sækja um sumarstarf fara bara í þrek- og göngupróf, aksturspróf, læknisskoðun og viðtal. Ef spurningar vakna hafið samband við Ingibjörgu Óðinsdóttur mannauðsstjóra (ingibjorgo@shs.is).

Hæfniskröfur í framtíðarstarf:

·         Hafa lokið iðnmenntun (sveinsprófi) eða sambærilegu (t.d. stúdentsprófi).
·         Hafa aukin ökuréttindi til að stjórna vörubifreið og leigubifreið (C=stór vörubifreið og B-far=leigubifreið). Athugið að ná þarf 21 árs aldri áður en hægt er að taka C-réttindi.
·         Færni í samskiptum, frumkvæði og geta til að vinna undir álagi.
·         Hafa góða líkamsburði og gott andlegt / líkamlegt heilbrigði.
·         Hafa góða sjón og heyrn, rétt litaskyn og vera ekki lofthrædd(ur) eða með innilokunarkennd.
·         Almenn reglusemi og háttvísi.

Hæfniskröfur í sumarstarf:

·         Hafa lokið grunnnámi (EMT-B) í sjúkraflutningum.
·         Hafa lokið a.m.k. 60 ein. framhaldsnámi.
·         Hafa aukin ökuréttindi (B-far leigubíll) við upphaf starfs.
·         Færni í samskiptum, frumkvæði og geta til að vinna undir álagi.
·         Hafa góða líkamsburði og gott andlegt / líkamlegt heilbrigði.
·         Almenn reglusemi og háttvísi.

Öllum umsóknum þarf að fylgja rafrænt eintak af:

·         Ökuskírteini (ljósrit sem sýnir ökuréttindi og mynd af viðkomandi, þ.e. báðar hliðar skírteinis).
·         Prófskírteini sem sýnir að viðkomandi hafi lokið iðnprófi / stúdentsprófi (60 ein. framhaldsnámi).
·         Passamynd (má senda rafrænt).
·         Ferilskrá.

Öllum umsóknum þarf að fylgja frumrit af: 

·         Læknisvottorð sem staðfestir almennt heilbrigði umsækjanda. Má ekki vera eldra en 3 mánaða. Fæst hjá heimilislækni.
·         Sakavottorð þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldra en 3 mánaða. Fæst hjá Sýslumanninum í Kópavogi, Hlíðarsmára 1.
·         Ökuferilskrá (yfirlit yfir punktastöðu viðkomandi) þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldri en 3 mánaða. Hægt er að fá stimplaða útprentun á ökuferilskrá hjá lögreglunni í því umdæmi sem viðkomandi á lögheimili. Fyrir höfuðborgarsvæðið er það Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, skv. upplýsingum frá Ríkislögreglustjóra.

ATH! Þessi fylgigögn þurfa að vera í frumriti (ekki rafrænt) og mega ekki vera eldri en 3 mánaða. Vinsamlega komið með frumritin í afgreiðsluna í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð 14, í umslagi merkt: ,,Starf hjá SHS”.

Inntökupróf

Inntökuprófin felast í: hlaupaprófi, könnun á lofthræðslu og innilokunarkennd, skriflegu prófi, þrek- og styrktarprófi, gönguprófi, sundprófi, akstursprófi, læknisskoðun og viðtali. Önnur próf en hlaupapróf fara fram helgarnar 27.-28. janúar og 3.-4. febrúar (hver umsækjandi mætir bara aðra helgina) og viðtölin fara fram 6.-15. febrúar. Ath. ef sótt er um sumarstarf er eingöngu lagt fyrir þrek- og göngupróf, aksturspróf, læknisskoðun og viðtal, ekki hlaupapróf.

Hlaupapróf

Hlaupa þarf 3 km vegalengd á innan við 13:15 mínútum (bæði konur og karlar) til að ná prófinu. Þeir sem ekki ná að hlaupa vegalengdina á þeim tíma komast ekki áfram í inntökuferlinu.

Eitt æfingahlaup er eftir fyrir þá umsækjendur sem eru að sækja um framstíðarstarf hjá slökkviliðinu. Það verður haldið í Laugardalshöllinni (gengið inn Suðurlandsbrautarmegin) laugardaginn 21. janúar kl. 11:00. Öllum er velkomið að mæta og þeir sem ná tímaviðmiðum í æfingahlaupunum þurfa ekki að hlaupa aftur og teljast hafa náð þeim hluta inntökuferilsins. Umsækjendur mæta í hlaupafatnaði og hlaupa í 5-6 manna hollum þar sem tekinn er tími á hverjum og einum. Sýna þarf skilríki. Ef einhver á eftir að ná hlaupinu eftir að umsóknarfresturinn rennur út þann 20. janúar nk. verður boðið uppá eitt hlaupapróf í Kaplakrika þann 26. janúar kl. 20:30.

Lofthræðslupróf

Umsækjendur þurfa að klifra upp í allt að 20 metra háan stiga á körfubíl og svara spurningum til að kanna hvort viðkomandi þoli að vera í mikilli hæð og hafi rökhugsun við þær aðstæður.

Þrek- og styrktarpróf

Þrek- og styrktarprófið er annars vegar göngupróf og hins vegar æfing í styrktarvél, tekið samhliða.

Þrek: Umsækjendur þurfa að ganga í 8 mínútur á göngubretti klæddir í eldgalla og með 10 kg kút á bakinu, samfellt vegur gallinn með kút í kringum 21 kg. Þeir ganga í 1 mínútu í 4% halla, 1 mínútu í 7% halla og 6 mínútur í 12% halla. Hraðinn er 5,6.

Styrkur: Um er að ræða þrenns konar mælingu í Concept-styrktarvél: bekkpressu, róður og fótapressu. Klæðnaður: íþróttaföt og íþróttaskór. Viðmiðunarkröfur eru eftirfarandi:

·         Bekkpressa þar sem rétt er úr handleggjum í sitjandi stöðu, 20 endurtekningar og meðaltal úr þeim.
·         Róður þar sem togað er að brjóstkassa með höndum í sitjandi stöðu, 20 endurtekningar og meðaltal úr þeim.
·         Fótapressa í sitjandi stöðu þar sem rétt er úr fótleggjum, 20 endurtekningar og meðaltal úr þeim.

Karlar    Konur 
 Bekkpressa Róður Fótapressa Bekkpressa Róður Fótapressa
 55 kg 55 kg 160 kg 48 kg 48 kg 130 kg

 

Innilokunarkennd

Umsækjendur eru prófaðir í reykköfun til að kanna hvort þeir þjáist af innilokunarkennd. Þeir eru með reykköfunartæki á bakinu og leysa ýmsar þrautir á æfingabraut með bundið fyrir augu. Nauðsynlegt að mæta í þægilegum fatnaði sem má skemmast, t.d. gömlum íþróttabuxum og bol.

Sundpróf

Sundprófið felst í 200m bringusundi, 200m skriðsundi, 25m björgunarsundi og einnig eru köfunaræfingar í lauginni.

Skriflegt próf

Skriflegt próf er lagt fyrir umsækjendur til að kanna almenna þekkingu. Prófið tekur á bilinu 30-60 mínútur og fer fram í slökkvistöðinni í Skógarhlíð.

Aksturspróf

Ökukennarar prófa umsækjendur í almennum akstri í u.þ.b. 45 mín. þar sem aksturslag er metið og þekking á umferðarreglum.

Viðtal

Umsækjendur sem náð hafa inntökuskilyrðum eru boðaðir í viðtal sem mannauðsstjóri tekur ásamt fulltrúum starfsmanna. Gert er ráð fyrir 20-30 mínútum á hvern umsækjanda.

Læknisskoðun

Umsækjendur fara í almenna læknisskoðun hjá trúnaðarlækni SHS sem innifelur m.a. hjartaálagspróf á hjóli.

Sækja um starf