Í dag eru slökkvitæki á 72% íslenskra heimila, samanborið við 61% árið 2014. Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði fyr­ir Lands­sam­band slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna og Eld­varna­banda­lagið, en slík könnun er framkvæmd annað hvert ár. Þá eru nú allt í senn reyk­skynj­ar­ar, eld­varna­teppi og slökkvi­tæki á yfir helm­ingi heim­ila, í fyrsta sinn síðan mæl­ing­ar hóf­ust.

Þannig sýna niðurstöðurnar að Íslend­ing­ar hafa auka eld­varn­ir heim­ila sinna jafnt og þétt, þó auðvitað megi gera betur. Þannig sýndi könnunin að á 28% heim­ila er aðeins einn reyk­skynj­ari, eða enginn, og sama hlut­fall heim­ila er án nokk­urra slökkvi­tækja. Það er því verk að vinna þó þetta sé vissulega ánægju­leg þróun.

„Þótt eld­vörn­um sé sann­ar­lega veru­lega ábóta­vant hjá mörg­um er þetta afar ánægju­leg þróun og já­kvætt að fá svona niður­stöðu nú þegar við erum að hefja ár­legt Eld­varna­átak slökkviliðsmanna í grunn­skól­um um allt land,” er haft eft­ir Valdi­mar Leó Friðriks­syni, fram­kvæmda­stjóra Lands­sam­bands slökkviliðs- og sjúkra­flutn­inga­manna, í til­kynn­ingu.

„Þetta styrk­ir okk­ur bara í þeirri trú að eld­varna­fræðsla okk­ar, Eld­varna­banda­lags­ins og fleiri skil­ar ár­angri.”

Eld­varna­átak fram til aðventu

Eld­varna­átakið hefst fimmtu­dag­inn 17. nóv­em­ber og stend­ur fram í byrj­un aðventu.

Slökkviliðsmenn heim­sækja þá nem­end­ur í 3. bekk grunn­skóla um allt land og fræða þá um eld­varn­ir. Helstu styrkt­araðilar Eld­varna­átaks­ins eru Mann­virkja­stofn­un, 112, Eign­ar­halds­fé­lagið Bruna­bóta­fé­lag Íslands, TM og slökkviliðin í land­inu, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá aðstand­end­um.