Í Skógarhlíðinni er margvísleg starfsemi til húsa og fjöldi fólks sem starfar í húsinu. Fyrir 3 vikum var neyðaráætlun virkjuð sem hafði það meðal annars í för með sér að teymum var skipt upp og húsinu skipt í nokkur svæði sem ekki mega hafa samskipti sín á milli. Þessar aðgerðir snúa allar að því að minnka líkur á að smit berist milli starfsmanna og eininga. Í dag starfa því tugir starfsmanna að heiman frá sér sem alla jafna væru í Skógarhlíðinni.

Starfsemi SST sem er samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna er með sama hætti og venjulega en þar starfa viðbragðsaðilar undir stjórn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Í SST er yfirsýn og stjórnun aðgerða fyrir allt landið ásamt stuðningi við aðgerðastjórnir sem eru í héraði. Upplýsingateymi almannavarna vegna COVID-19 er einnig að störfum í SST, þau halda meðal annars utan um www.covid.is og vinna að því að ná til sem flestra með upplýsingagjöf. Mikilvægt er að yfirsýn yfir stöðuna sé á einum stað, þarna er unnið að upplýsingagjöf og mikil samvinna milli viðbragsaðila. Þrátt fyrir mikla samvinnu þá er þess að sjálfsögðu gætt að 2 metrar séu á milli einstaklinga – því við erum jú öll almannavarnir!