Eins og fram hefur komið þá höfum við ekki farið varhluta af COVID-19 veirunni, í dag eru 3 starfsmenn í einangrun og 4 í sóttkví, 6 hafa lokið sóttkví og einangrun. Við sinnum samfélagslega mikilvægri þjónustu og það er mjög slæmt að missa okkar fólk í veikindi í langan tíma. Einn af þeim sem veiktist í útkalli í mars er Loftur Þór Einarsson, sem hefur unnið hjá okkur síðan 2009.  Loftur hefur verið í einangrun síðan 21. mars. Sem betur fer er hann ekki með mikil einkenni og er líðan hans góð, hann býst við að losna úr einangrun 6. apríl. 

Loftur vill koma því á framfæri við fólk að mikilvægt sé að láta vita af  staðfestu eða hugsanlegu smiti. “Þegar við mætum til ykkar, klædd eins og við séum að fara til tunglsins, í sóttvarnargalla, með grímur, með gleraugu og hanska, þá er það svo við getum haldið áfram að vinna fyrir ykkur, og að við komumst heil heim til fjölskyldna okkar úr vinnunni” segir Loftur.

Við biðlum til ykkar að hjálpa okkur að hindra smit og taka fram þegar þið hringið í 112 og óskið eftir sjúkrabíl hvort um hugsanlegt eða staðfest smit sé á heimilinu. Við erum til staðar fyrir ykkur og saman verndum við okkar framlínufólk, því við erum jú öll almannavarnir.