Þá er 4. maí runnin upp með tilheyrandi tilslökunum á samkomubanni. Til að hindra smit á milli okkar starfsmanna skiptum við upp vöktum og fjölguðum starfsstöðvum okkar í mars. Í dag erum við með ellefu stöðvar í stað fjögurra og fjórskiptar vaktir sem þýðir að við erum með 44 starfseiningar, það er enginn samgangur á milli þeirra. Þar sem við erum heilbrigðisstarfsfólk í framlínu verður ekki breyting á þessu fyrirkomulagi okkar strax. Við verðum að sjá hvernig gengur með tilslakanir í þjóðfélaginu áður en við gerum einhverjar breytingar hjá okkur.

Sjúkraflutningar með covid sjúklinga hafa verið fyrirferðamiklir en þeir voru alls 250 í apríl. Þessir flutningar taka talsvert lengri tíma heldur en hefðbundnir sjúkraflutningar, meðal annars vegna hlífðarbúnaðar starfsmanna sem og sótthreinsun á bílum, búnaði og starfsfólki eftir flutning.

Við viljum þakka öðru heilbrigðisstarfsfólki, lögreglu, samstarfsfélögum og ekki síst borgurum fyrir frábært samstarf á þessum sérstöku tímum. Gott samstarf er ómetanlegt og það hefur verið frábært að finna hvað allir viðbragðsaðilar vinna vel saman ekki síst þegar við stöndum í ströngu eins og núna.

Við erum bjartsýn á að við munum komast í gegnum þetta saman en við skulum öll fara að tilmælum, muna eftir 2 metra reglunni, forðast mannmergð, huga vel að handþvotti og sótthreinsun því covid-19 faraldurinn er ekki búinn ennþá.