Í dag var neyðarstigi aflétt hér í Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð og voru skrifstofur opnaðar fyrir alla starfsmenn hússins. Áfram verður aðskilnaður milli slökkvi- og sjúkraflutninamanna til 1. júní.

Við breyttum engu þann 4. maí þegar fyrstu tilslakanir á samkomubanninu voru gefnar út þar sem við sinnum samfélagslega mikilvægri heilbrigðisþjónustu. Við töldum nauðsynlegt að bíða og sjá hvernig myndi ganga áður en við gerðum breytingar á okkar uppskiptingu.

Það er ótrúlegt að staldra við á þessum tímamótum og sjá hversu mikið hefur breyst í okkar starfsemi á stuttum tíma, í dag eru 88 dagar frá fyrsta smiti í landinu. Við fórum yfir á hættustig þann 12. mars síðastliðinn og við þá ákvörðun þá breyttist starfsemin hér í Skógarhlíðinni mikið. Húsið var hólfað niður í 9 einingar og 18 starfsmenn hafa sinnt sinni vinnu að heiman. Þetta var í fyrsta skipti sem Björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð var lokað en fram að 12. mars hafði hún verið opin allan sólarhringinn í 5.830 daga eða 832 vikur og 6 daga.

Við skiptum upp vöktunum okkar og fjölguðum stöðvum um fimm til að forðast smit á milli okkar framlínufólks. Vaktir hittast ekki á vaktaskiptum  og samskipti milli vakta eru mjög strangar. Má segja að varðliðið hafi á þessum tíma verið 44 starfseiningar þ.e. 11 stöðvar x fjórskiptar vaktir = 44 starfseiningar. Eins og gefur að skilja þá hafði þetta mikil áhrif á starfsfólk. Í tilefni af þessum tímamótum í dag opnuðu allir forstöðumenn í húsinu húsið formlega á ný. Það ríkti góð stemning í portinu hjá okkur enda starfsmenn að hitta vinnufélaga og vini eftir langan aðskilnað.