Í dag eru 20 ár síðan Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) varð til við sameiningu Slökkviliðs Reykjavíkur og Slökkviliðs Hafnfarfjarðar. Að sameiningunni stóðu sjö sveitarfélög, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær, Garðabær, Bessastaðahreppur, Mosfellsbær og Seltjarnarneskaupstaður. Á sama tíma var gerður þjónustusamningur við Flugmálastjórn um rekstur á slökkviliði á Reykjavíkurflugvelli og við Kjósarhrepp um þjónustu.

Tilgangurinn með sameiningunni var að stofna öflugt alhliða slökkvi- og björgunarlið með mikinn útkallsstyrk og hefur hefur sameiningin sannað sig margoft í stórum og flóknum verkefnum sem við höfum fengist við. Við sameiningu varð til öflugasta slökkvilið landsins sem þjónustaði um  170 þúsund manns, í  dag eru þeir orðnir tæplega 221 þúsund eða um 30% fjölgun.

Starfsmenn okkar voru við sameiningu um 150, í dag eru þeir 183, um 20% fjölgun, þar af starfa 150 sem slökkviliðs- og sjúkraflutningum, sem kallar á mikla og víðtæka þekkingu meðal þeirra. Starfsemin er fjölbreytt, en auk lögbundinna verkefna sem eru eldvarnir, slökkvistörf vegna eldsvoða, viðbúnaður við mengunaróhöppum og björgun á fastklemmdu fólki, sinnum við meðal annars sjúkraflutningum, björgunarköfun, björgun í fjalllendi og verðmætabjörgun vegna vatnstjóns.

Við sameininguna voru þrjár stöðvar í rekstri, í Skógarhlíð, á Tunguhálsi og á Flatahrauni í Hafnarfirði. Ný stöð var opnuð í Skútahrauni Hafnarfirði árið 2002 sem leysti stöðina á Flatahrauni af.  Árið 2015 bættist fjórða stöðin við í Mosfellsbæ. Allar stöðvarnar eru mannaðar allan sólarhringinn.

Á þessum 20 árum hafa slökkvi- og sjúkrabifreiðar okkar verið boðaðar út ríflega 521.000 sinnum sem er að meðaltali um 26.000 boðanir á hverju ári. Fyrsta heila rekstrarárið, árið 2001, voru boðanir um 20.600 en árið 2019 voru þær um 33.500 sem er um 63% fjölgun.  Er það áhugavert þar sem fjölgun íbúa er ríflega helmingi minni svo ekki sé talað um fjölgun starfsmanna.

Á myndinni má sjá forsvarsmenn sveitarfélaganna innsigla sameiningu slökkviliðanna, athöfnin fór fram á Arnraneshæð.