Mikið álag hefur verið hjá okkur frá upphafi COVID-19 faraldursins og miðað við fjölda smita er líklegt að svo muni verða á næstunni. Álagssveiflur vegna COVID kalla á aukinn mannafla á vakt, á sama tíma og mikilvægt er að skipta starfsfólki á vakt upp í smærri hópa til að koma í veg fyrir að missa marga í sóttkví eða einangrun.

Það er ánægjulegt að segja frá því að samkomulag hefur náðst milli SHS annars vegar og Íslenskra orkurannsókna – ÍSOR – hins vegar, um nýtingu SHS á hluta þess húsnæðis sem ÍSOR leigir af Ríkiseignum að Grensásvegi 9 í Reykjavík. Með því er okkur tryggð aðstaða fyrir 2 sjúkrabíla ásamt aðstöðu fyrir sjúkraflutningafólk. Þegar hefur verið hafist handa við að tæma húsnæðið og gert ráð fyrir að við fáum það afhent á næstu dögum.