Í úttektum okkar undanfarnar vikur hefur komið í ljós að fyrirtæki og stofnanir sem eru að uppfylla kröfur um sóttvarnir vegna COVID-19 láta stundum brunavarnir víkja fyrir þeim. Dæmi eru um að eldvarnahurðir eru festar upp til að fyrirbyggja snertismit, flóttaleiðir eru lokaðar af vegna hólfaskiptinga auk þess að reglubundnu eftirliti er frestað þegar fyrirtækin eru með lokun á gesti inn í húsnæðið.

Það er skýr krafa slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og ein helsta ástæða brunavarna að fólk komist út eða á öruggt svæði. Fólk verður að komast út um merktar flóttaleiðir, brunahólfanir flóttaleiða eins og sjálflokandi eldvarnahurðir séu virkar, greiðfærar og tryggi að fólk sé ekki í hættu í flóttaleiðum.

Reglubundið eftirlit með brunavörnum húsnæðis þarf að fara fram og það er ekkert sem heimilar að hætta því þrátt fyrir erfitt ástand í þjóðfélaginu. Húsnæði er hannað og byggt með ákveðnar kröfur um brunavarnir og eftirlit með þeim til að tryggja öryggi fólks. Ekki má sleppa eftirliti þar sem það getur haft áhrif á öryggi fólks.Hægt að hafa samband við forvarnarsvið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins til að fá frekari upplýsingar og  ráðleggingar um útfærslur.

Samvinna er aðalmálið og það eru til lausnir á öllum verkefnum.