Nú fer aðventan að ganga í garð með kertaljósum og tilheyrandi. Þetta er því góður tími til að huga að eldvörnum og flóttaleiðum heimilisins. Grunnurinn að góðum eldvörnum er að sjálfsögðu góðir reykskynjarar, eldvarnateppi í eldhúsi, slökkvitæki og minnst tvær flóttaleiðir út.

Reykskynjarar ættu að vera í öllum rýmum þar sem flest rými eru með eldhættu vegna rafmagnstækja. Þar má nefna hleðslutæki, tölvur, símar og sjónvarpstæki sem eru í flestum barna og unglingaherbergjum. Þvottavélar og þurrkarar eru í sér rýmum og eldhúsin með allskyns heimilistækjum.

Til eru nokkrar gerðir af reykskynjurum fyrir utan þessa venjulegu t.d. samtengdir rafhlöðuskynjarar sem eru þráðlausir og fara allir í gang ef einn fer í gang. Þeir geta aukið öryggið mikið t.d. þegar húsnæði er á 2-3 hæðum t.d. kjallari með þvottavél, miðhæð stofa, eldhús og hjónaherbergi og börn á efstu hæð. Þeir reynast líka vel þar sem börn og unglingar hreinlega vakna ekki alltaf við reykskynjara.

Mikilvægt er að hafa gasskynjara séu gaseldavélar og/eða gasarnar á heimilum. Skynjarar eru þá staðsettir neðst við gólf þar sem gasið fer niður og getur hlaðist upp án þess að fólk verði vart við gasleka.

Varðandi flóttaleiðir þá eru flest nýleg hús með ágætar flóttaleiðir fyrir utan stigagang sem eru þá svalir og björgunarop sem eru stórir opnanlegir gluggar þar sem hægt er að bíða eftir björgun. Sumir bæta við fellistigum þannig að fullfrískt fólk ætti að komast sjálft niður á jörð. Því miður eru mörg gömul hús ekki með sömu öryggisatriði en oft er hægt að gera úrbætur á þeim.

Höfum varann á og förum yfir eldvarnirnar á heimilinu.