Eldvarnirnar miða fyrst og fremst að því að tryggja líf þitt og heilsu. Í öðru lagi geta eldvarnir dregið verulega úr tjóni á eignum þínum. Þú þarft fyrst og fremst að hafa eftirfarandi til staðar og í lagi:

  • Reykskynjara, nægjanlega marga og rétt staðsetta
  • Flóttaleiðir, nægilega margar og greiðfærar
  • Slökkvibúnað af réttri gerð og rétt staðsettan
  • Þekkingu á fyrstu viðbrögðum
  • Muna símanúmer neyðarlínunnar 112

Hver og einn verður að taka um það sjálfstæða ákvörðun hvort hann eigi að ráðast til atlögu við eld eða ekki, en allan vafa túlkar maður sér í hag. Þá yfirgefur maður rýmið og lokar því á eftir sér til að draga úr útbreiðslu elds og reyks. Skemmdir verða þar af leiðandi minni en ella.

Sé hins vegar lagt til atlögu við eld þarf fyrst að tryggja að flóttaleið sé greið. Síðan þarf að halda á slökkvitækinu uppréttu og beina slökkviefninu með jafnri hliðarhreyfingu að rótum eldsins. Öruggast er að beygja sig aðeins í hnjánum þegar maður athafnar sig í eldi því yfirleitt er hreinna og svalara loft neðar í rýminu. Það fer eftir stærð og gerð tækisins hve fljótt það tæmist en það tekur sekúndur, ekki mínútur. Ef ekki tekst að slökkva eldinn með einu slökkvitæki er umfang eldsins greinilega of mikið. Þá ber að huga að eigin öryggi og yfirgefa vettvanginn. Mundu að reykurinn getur skaðað illa. Flestir sem láta lífið í eldsvoðum látast af völdum reykeitrunar.

Eldvarnabandalagið hefur gefið út ítarlegt fræðsluefni um eldvarnir heimilisins. Við hvetjum þig til þess að kynna þér það vel. Þú getur nálgast efnið hér að neðan:

Eldvarnir – handbók heimilisins