Reykskynjarar

Reykskynjarar eru ódýr öryggistæki sem geta auðveldlega bjargað mannslífum og eiga því að vera á hverju heimili. Gæta þarf þess að þeir séu nógu margir, rétt staðsettir, af réttri gerð og í lagi, þ.e. hafi góða rafhlöðu. Ef þú ert með nægilega marga virka reykskynjara getur þú brugðist fljótt við ef eldur kviknar og minni hætta á að reykur og eldur loki flóttaleiðum þínum.

Mismunandi gerðir

Til eru nokkrar gerðir reykskynjara og getur borgað sig að hafa fleiri en eina gerð á heimilinu.

Jónískir

Flestir venjulegir reykskynjarar á heimilum eru jónískir. Jónískir skynjarar nema allar stærðir reykagna. Jónískir skynjarar eru mjög næmir fyrir reyk sem myndast við opinn eld og bregðast fyrr við opnum eldi en optískir reykskynjarar.  Þeir eru góðir alhliða reykskynjarar í flest rými á heimilum.  Þeir eru hins vegar einnig næmir fyrir raka, hita og brælu frá matargerð og henta því ekki í eða við þvottahús og eldhús.

Optískir

Optískir skynjarar bregðast einnig skjótt við reyk, en nema betur reyk sem myndast við upphaf glóðarbruna, t.d. í sófum. Þeir eru ekki eins næmir fyrir raka, hita og brælu og henta því t.d. vel í eða við eldhús og þvottahús. Í alrými er gott að hafa bæði jónískan og optískan skynjara.
Hitaskynjarar
Hitaskynjarar nema hita en ekki reyk. Þeir þykja heppilegir til dæmis í bílskúra og eldhús.
Gasskynjarar
Gasskynjarar skynja gas og eru nauðsynlegir þar sem hætta er á gasleka. Þeir sem nota gas til eldunar ættu að setja gasskynjara á sökkul innréttingarinnar. Gasskynjara þarf að endurnýja á fimm ára fresti og þeir koma ekki í stað reykskynjara.

Kolsýringsskynjarar

Kolsýringsskynjarargreina þegar óvenjulega mikill kolsýringur myndast. Þeir gefa frá sér hljóð og rautt ljós blikkar. Ef gas brennur þar sem engin loftræsting er brennir það smám saman upp súrefni og um leið eykst kolsýringur í andrúmsloftinu. Hann er ósýnilegur, lyktarlaus og bragðlaus, hefur sljóvgandi áhrif og leiðir til dauða ef ekki er brugðist við í tæka tíð. Mælt er með því að skynjarinn sé settur í herbergi eða nálægt herbergjum sem í eru tæki sem brenna gasi til eldunar eða upphitunar. Best er að setja skynjarann í loft, tvo til þrjá metra lárétt frá gastækinu og 30cm frá vegg, í herbergjum þar sem gasbrennarar eru. Ítarlegar upplýsingar fylgja þegar keyptir eru reykskynjarar og er fólk hvatt til þess að kynna sér þær rækilega. Ávallt ber að velja viðurkenndan búnað.

Hvar og hvernig

Hvernig reyksskynjara á að hafa og hvar eiga þeir að vera? Híbýli manna eru mismunandi og því verður að meta hvert húsnæði með tilliti til stærðar og gerðar. Hér eru nokkur atriði sem ættu að hjálpa þér við val og staðsetningu. Einnig getur þú smellt á myndirnar hér að neðan til þess að skoða staðsetningu og gerð reykskynjara í íbúð í fjölbýli og sérbýli.

Fjöldi

Á nútíma heimili ætti að vera einn reykskynjari í hverju herbergi. Sérstaklega á þetta við um barnaherbergi þar sem tölva, sjónvarp og hljómflutningstæki eru til staðar. Einnig þarf reykskynjara í stofuna, við eldhúsið, við þvottahúsið, á ganga og í bílskúrinn. Ef hús er á mörgum hæðum þurfa reykskynjarar að vera á hverri hæð.

Val á reykskynjara

Til þess að velja rétta tegund getum við haft til hliðsjónar umfjöllunina um jóníska og optíska reykskynjara.

Staðsetning

Staðsettu reykskynjara ávallt eins hátt uppi og hægt er vegna þess að reykurinn stígur upp. Settu þó aldrei reykskynjara í kverkina á milli lofts og veggjar, vegna þess að u.þ.b. 25 cm svæði niður á vegginn eða út á loftið er oft á tíðum reyklaust. Settu reykskynjarann því helst upp í loft og töluvert frá vegg. Í risi eða á hallandi lofti skal staðsetja skynjarana eins ofarlega og hægt er.

Í opnum stigagöngum þar sem hvorki eru hurðir niðri eða uppi, skal staðsetja reykskynjara á hverjum þeim stað þar sem má ætla að reykur nái að stöðvast á leið sinni upp stigaganginn. Þar sem hurð er efst í kjallarastiga, er best að staðsetja reykskynjarann neðst við stigann, þar sem dautt loft getur verið til staðar efst í stiganum við dyrnar og hindrað að reykur nái þangað fyrr en seint og um síðir. Staðsetjið reykskynjara ekki nálægt gluggum, hurðum eða á öðrum þeim stöðum þar sem dragsúgur getur hindrað starfsemi þeirra.

Stofan

Ef sjónvarp og önnur rafmagnstæki eru í stofunni ætti að vera optískur skynjari.

Eldhúsið

Ekki skal setja reykskynjarann inn í eldhúsið heldur við það. Optískur reykskynjari verður þar fyrir valinu því minni hætta er á falsboðum frá honum.

Svefnherbergi

Ef raftæki eins og sjónvarp, hljómflutningstæki og tölva eru í herberginu, ætti að vera optískur reykskynjari þar, en annars jónískur.

Opin rými

Í ganga og stigaop eru jónískir reykskynjarar æskilegir.

Þvottahúsið

Í þvottahúsið setjum við optískan reykskynjara því jónískur reykskynjari er vís með að vera með falsboð vegna gufu. Ef optíski reykskynjarinn er inni í þvottahúsinu og fer oft í gang vegna gufu, skaltu prófa að færa hann og setja hann við þvottahúsið.

Bílskúrinn

Í bílskúrnum ætti að vera optískur reykskynjari, en ef mikið er unnið í bílskúrnum við smíðar, rafsuðu og þess háttar, ætti þar að vera hitaskynjari. Best er ef reykskynjarinn í bílskúrnum er tengdur við annan inni í íbúðinni.

Viðhald reykskynjara

Hafðu fyrir reglu að prófa reykskynjarana þína einu sinni í mánuði. Settu nýja rafhlöðu í reykskynjara a.m.k. einu sinni á ári. Því miður hefur komið í ljós að fjórðungur reykskynjara virka yfirleitt ekki, ýmist vegna bilana eða að í þá vantar rafhlöðu. Ef reykskynjari gefur frá sér stutt hljóð á u.þ.b. 1/2 mínútna fresti skaltu skipta um rafhlöðu strax því það er merki um að hún sé að verða tóm.

Ryk og önnur óhreinindi geta gert reykskynjarann ónæman fyrir reyk, en einnig ofurnæman. Hreinsaðu hann því reglulega, t.d. með því að ryksuga hann og/eða blása úr honum rykinu. Málaðu aldrei reykskynjarann, málning getur varnað því að reykur komist inn í hann.

Við prófanir á reykskynjaranum er þrýst á prófunarhnapp hans og honum haldið inni í nokkrar sekúndur. Einnig er gott að láta reyk (kveikja í blaðbút í óbrennanlegu íláti undir honum) liðast að honum. Hann þagnar þegar reyknum er blásið burtu.

Fölsk boð

Reykskynjarar geta stundum gefið fölsk boð, þá oftast vegna gufu frá baðherbergi eða lyktar úr eldhúsi. Ef þetta gerist oft skaltu prófa að færa reykskynjarann frá eldhúsinu eða baðherberginu. Þrífðu reykskynjarann reglulega. Dugi það ekki, skiptu þá um reykskynjara eða fáðu þér reykskynjara með „seinkunarhnapp“ sem þaggar niður í reykskynjaranum í ákveðinn tíma, t.d. 3 mínútur en gerir hann síðan fullvirkan aftur.

Eldvarnarteppi

Eldvarnateppi eru einnig slökkvitæki, auðveld í meðförum og hafa margsannað gildi sitt. Þau koma ekki í staðinn fyrir slökkvitæki heldur eru nauðsynleg viðbót fyrir þá sem vilja hafa eldvarnir í lagi. Rétt notkun þeirra hindrar að súrefni komist að eldinum og við það slokknar hann.

Eldvarnateppi henta vel til þess að slökkva eld í feiti í potti og ýmsum smærri hlutum sem hægt er að hjúpa inn í teppið. Á heimilum ættu teppin að vera í eldhúsi, sýnileg á vegg og nálægt eldhúsdyrum. Eftir notkun má auðveldlega setja þau aftur í umbúðirnar.

Slökkvitæki

Handslökkvitæki henta aðeins á upphafseld, geta þeirra leyfir ekki meira. Ef eldur uppgötvast í tæka tíð er oft hægt að ráða niðurlögum hans með handslökkvitæki eða eldvarnateppi, allt eftir því sem við á hverju sinni.

Hver og einn verður að meta það  hvort hann eigi að ráðast til atlögu við eld eða ekki en mikilvægt er að hafa ávallt í huga ,,mannslíf fyrst, eigur síðar”. Allan vafa túlkar maður sér í hag, yfirgefur rýmið og lokar því á eftir sér. Það dregur úr útbreiðslu elds og reyks og skemmdir verða þar af leiðandi minni en ella.

Sé lagt til atlögu við eld þarf jafnframt að tryggja að flóttaleið sé greið. Öruggast er að beygja sig aðeins því yfirleitt er hreinna og svalara loft neðar í rýminu. Halda á slökkvitækinu uppréttu og beina slökkviefninu með jafnri hliðarhreyfingu að rótum eldsins. Það fer síðan eftir stærð og gerð tækisins hve fljótt það tæmist. Það tekur sekúndur en ekki mínútur. Ef ekki tekst að slökkva eld með einu slökkvitæki er umfang eldsins okkur greinilega ofviða. Hugum því að eigin öryggi og yfirgefum vettvanginn. Munum að reykurinn getur líka skaðað okkur illa. Flestir sem láta lífið í eldsvoðum látast af völdum reykeitrunar.

Slökkvitæki og eldvarnateppi ættu að vera á hverju heimili því sé því beitt tímanlega og á réttan hátt er hægt að koma í veg fyrir stórtjón. Staðsettu slökkvitækið á vegg nærri útgangi og eldvarnateppið þar sem það er aðgengilegt á vegg í eða nærri eldhúsi. Þetta eru öflugar eldvarnir sem bjarga mannslífum og því ekki peningasóun heldur lífsnauðsynleg fjárfesting. Mannvirkjastofnun hefur gefið út ítarlegar leiðbeiningar um slökkvitæki sem nálgast má hér Leiðbeiningar um val og staðsetningu handslökkvitækja nr. 165.BR1

Til eru nokkrar gerðir handslökkvitækja sem eru ætlaðar á mismunandi elda, en eldar eru flokkaðir í þrjá meginflokka, þ.e. A, B og C elda:

  • “A” er bruni í föstum, yfirleitt lífrænum efnum þar sem bruni myndar oftast glóð
  • “B” er bruni í vökvum eða föstu efni sem bráðnar
  • “C” er bruni í gasi (lofttegund)

Helstu gerðir handslökkvitækja eru léttvatnstæki, dufttæki, og kolsýrutæki.

Léttvatnstæki

Léttvatnstæki eru nýjasta viðbótin í slökkvitækjaflóruna. Ekki alveg jafnoki dufttækjanna hvað fjölhæfni varðar og slökkvigetu, en hefur þann stóra kost umfram duftið að sóða ekkert út. Röng notkun, ef svo má að orði komast, veldur ekki aukinni útbreiðslu elds. Léttvatn hentar á A- og B-eld og að auki á eld í rafbúnaði ef rétt er að verki staðið.

Slökkvitæki sem notað hefur verið þarf að endurhlaða og yfirfara hjá fagaðila eins fljótt og kostur er. Annars er það gagnslaust. Ráðlegt er að láta yfirfara slökkvitæki árlega til þess að tryggja að tækið virki rétt þegar á þarf að halda.

Dufttæki

Dufttæki (ABC-dufttæki) henta á flesta elda og eru því mjög fjölhæf. Þau henta sérstaklega vel þar sem gaseldavélar eru en þar ættu þau annað hvort að vera aðalslökkvitæki heimilisins eða lítið aukatæki í eldhúsi sem einungis er ætlað á gaseldinn. Þá er hægt að hafa léttvatnstækið tiltækt á allt annað, en þetta verður hver og einn að gera upp við sig.

Dufttæki hafa þó þann galla að duftið skilur eftir sig ryk sem erfitt er að þrífa og veldur tæringu á málmum. Best er að reyna að ryksuga duftið upp en varast skal að reyna að þvo það burtu með vatni.

Röng beiting dufttækis getur líka breitt út eld, ef t.d. stút tækisins er haldið of nálægt eldi í feiti eða olíu. Ástæðan er sú að duftið þrýstist út af töluverðum krafti og getur þess vegna þeytt eldsneytinu í allar áttir og aukið umfang eldsins. Krafturinn er stundum nægjanlega mikill til þess að skjóta potti af eldavél.

Tjón af völdum dufts er oft meira en tjón sem verður af eldi og reyk og tölur geta hlaupið á hundruðum þúsunda samkvæmt skýrslum tryggingafélaga.  Dufti má líkja við gott lyf með aukaverkunum. Slökkvigetan og fjölhæfnin verða þó ekki véfengd.

Kolsýruslökkvitæki

Kolsýruslökkvitæki henta á B-eld og eld í eldhúsi. Einnig duga þau vel á eld í rafbúnaði líkt og dufttækin en skemma ekkert þar sem kolsýran hverfur þegar hún hefur gegnt sínu hlutverki.  Í höndum þeirra sem þekkja annmarka efnisins er kolsýra þokkalegt slökkviefni. Hún hefur stutta kastlengd, er köld, ryður burt súrefni en slekkur ekki glóð og hentar þess vegna ekki á A-elda (timbur, föt o.fl.) nema til þess að slá á logana. Vatn verður þess vegna að koma á eftir til þess að slökkva glóðina.

Hvað hentar best á heimilið?

Þegar velja á slökkvitæki fyrir heimilið stendur valið á milli tveggja öflugustu og fjölhæfustu gerðanna, þ.e. léttvatnstækis og dufttækis. Léttvatn er öflugt slökkviefni og tjón af völdum þess er lítið miðað við það tjón sem getur hlotist af notkun dufttækis. Það er hins vegar ráðlegt að hafa dufttæki tiltækt á heimilum með gaseldavélar , annað hvort sem aðalslökkvitæki heimilisins eða sem lítið aukatæki í eldhúsi sem einungis er ætlað á gaseldinn. Þá væri hægt að hafa léttvatnstækið tiltækt á allt annað. Þetta verður hver og einn að gera upp við sig.

Stigar og siglínur

Aðstæður eru víða þannig í eldra húsnæði að aðeins ein trygg flóttaleið er úr íbúð. Þá getur reynst nauðsynlegt að setja stiga eða siglínu við björgunarop, til dæmis glugga. Nokkrir valkostir eru í boði:

Seftarar eru kaðal- og keðjustigar úr treg- eða óbrennanlegum efnum. Þeir eru festir á vegg við glugga eða eru færanlegir með festingum sem settar eru yfir gluggakistu. Þessir stigar geta sveiflast nokkuð til og eru erfiðir fyrir ung börn nema einhver haldi við þá að neðan. Þessir stigar duga fyrir tveggja til þriggja hæða hús og eru ódýr lausn.

Álstigar eru til í mörgum útfærslum. Þeir líta út eins og niðurfall úr þakrennu þegar þeir eru ekki í notkun en standa eins og venjulegir stigar við hús þegar þeir eru í notkun en þá snýr önnur langhliðin að veggnum. Álstigar eru auðveldir í notkun fyrir alla, duga fyrir stærri hús en eru nokkuð dýrir.

Siglínur eru til í nokkrum gerðum. Algengast er að siglínan eða festing fyrir hana sé á vegg við glugga. Lykkju á enda línunnar er brugðið utan um þann sem ætlar út og sígur hann hægt og rólega til jarðar. Siglínur geta verið með tvöfaldri lengd til jarðar og lykkju á báðum endum þannig að þegar einn er kominn niður er hinn endinn tilbúinn fyrir næsta mann uppi. Siglínur duga fyrir tveggja til þriggja hæða hús og eru ódýr og auðveld lausn fyrir alla.

Ávallt skal velja viðurkenndan búnað.