Staðsetning og geymsla

Æskilegast er að geyma gaskúta sem ekki eru í notkun utandyra í læstum, vel loftræstum og merktum skáp. Kútarnir eiga ávallt að vera í uppréttri stöðu og á stöðugu undirlagi. Sé gaskútur geymdur í lokuðum skáp innandyra ber að tryggja loftræstingu bæði ofan til og neðan. Ekki má geyma gaskúta Í kjöllurum,  á háalofti eða í niðurgröfnu rými.

Gæta þarf þess að gaskútar sem eru í notkun verði ekki fyrir utanaðkomandi hita eða skemmdum frá nálægum búnaði. Staðsetja skal þá minnst 1 m frá ofni, arni, kæliskáp, frystikistu, rafmagnsofni eða öðrum tækjum sem geta gefið neista. Sú fjarlægð má vera 0,5 m ef það er skilrúm úr eldverjandi efni milli kútsins og logans á notkunarstað. ATH! Þegar verið er að grilla skal staðsetja gaskútinn til hliðar við grillið, alls ekki undir grillið þar sem neistar gætu myndast. Mjög áríðandi er að setja upp gasskynjara niður við gólf innanhúss nálægt búnaði og gaskútum.

Leyfilegt hámarksmagn í geymslu

Sérstakt leyfi byggingarfulltrúa þarf fyrir geymslu á meira en 15 kg gaskút innahúss eða 40 kg gaskút utanhúss. Í töflunni hér að neðan má sjá hvaða magn er leyfilegt að geyma á hverjum stað.

Einbýli 3 Fjölbýli
Íbúð 11 kg 4 11 kg 4
Húsvagn / Bíll 2 x 11 kg 1 Á ekki við
Kjallari Ekkert Ekkert
Háaloft Ekkert Ekkert
Geymsla 2 11 kg 4 5 kg 4
Bílskúr 2 11 kg 4 11 kg 4
  1. Um heildarmagn er að ræða, þ.e. 1 kútur í notkun og 1 til vara.
  2. Geymsla og bílskúr skulu vera aðskilin brunatæknilega frá íbúð.
  3. Raðhús og parhús teljast hér til einbýlishúsa. Gaskúta má ekki geyma í sameiginlegum geymslum.
  4. Geymslur og bílskúrar skulu vera vel loftræstar, sem og skápur fyrir gaskút í íbúð. Ekki ætti að geyma gaskúta þar sem mikill hiti er eða hætta á neistamyndun.

Tengingar og viðhald

Þegar gastæki er tengt við gaskút þarf að vera réttur þrýstingur á gasinu frá kútnum. Til þess er þrýstijafnari. Rangur þrýstingur getur auðveldlega leitt til íkveikju og því er nauðsynlegt að lesa leiðbeiningarnar vel áður en tækið er tengt og hafa samband við fagaðila ef einhver vafi er til staðar. Sérstaklega þarf að vera á varðbergi þegar um er að ræða tækjabúnað keyptan utan Evrópu en flest tæki sem fylgja Evrópustöðlum og eru til sölu hér á landi, s.s. eldavélar, kæliskápar, grill og gashitarar þurfa lágan þrýsting. Algengast er að þau þurfi 30 millibara þrýsting sem samsvarar 3kPa.
Hafa ber í huga að þrýstijafnarar geta lekið þegar líftíma þeirra er lokið og því þarf að fylgjast með því. Af og til þarf líka að kanna hvort gúmmíhringurinn í þrýstijafnaranum sé óskaddaður, þ.e. að ekkert skarð sé í honum. Hægt er að kanna hvort þrýstijafnarinn lekur með því að hella sápuvatni yfir hann og kanna hvort loftbólur myndist.

Þrýstijafnarar

Þrýstijafnarar eru ýmist skrúfaðir eða smelltir á gaskútana.

Skrúfaðir

Ef þrýstijafnarar eru skrúfaðir eru þeir með öfugum skrúfgangi þ.e. skrúfað til vinstri til að tengja þá við kútinn (öfugur sólargangur).  Ef kútar eru af stærðinni 5, 9 eða 10 kg skal þéttingsherða þrýstijafnarannn með höndum en 11 kg kúta þar sem gengjurnar eru utanáliggjandi skal þéttingsherða með lykli. Góð regla er að kanna slönguna í hvert sinn sem skipt er um gaskút, þ.e. hvort hún lekur.

 

Skrúfaður þrýstijafnari

Smelltir

Ef þrýstijafnarinn er smelltur á kútinn skaltu fyrst taka plastumbúðir af stútnum, hafa þrýstijafnarann lokaðan og festa hann við stútinn með því að toga hringinn á þrýstijafnaranum að þér og setja hann yfir stútinn. Ýttu hringnum á þrýstijafnaranum síðan niður þar til þú heyrir lágvært smelluhljóð. Hægt er að kanna hvort þrýstijafnarinn er rétt festur með því að halda einungis í þrýstijafnarann og lyfta gaskútnum. Þegar þrýstijafnarinn er rétt festur er hægt að halda á gaskútnum með því að halda einungis í þrýstijafnarann.

Smelltur þrýstijafnari

Þegar þrýstijafnarinn hefur verið festur má opna fyrir gasflæði með því að færa litla handfangið til hliðar sem annað hvort er ofan á þrýstijafnaranum eða til hliðar við hann þannig að rauða hliðin snúi upp (eldmerki). Athugaðu að hafa lokann á gastækinu lokaðan áður en þú setur gasflæði á og kveikir á tækinu. Reynið að tryggja að vatn komist ekki að þrýstijafnaranum, í frosti getur frosið vatn haft áhrif á eiginleika hans.

Gasslöngur

Mikilvægt er að nota einungis viðurkenndar gasslöngur fyrir gaskúta sem yfirleitt eru appelsínurauðar á litinn. Gasslöngurnar þarf að tengja við þar til gerð slöngutengi og festa með slönguklemmum. Slöngurnar meiga alls ekki vera of langar, ef þær eru notaðar við fastan búnað (eldavél, arin o.s.frv.) eiga þær að vera 1 m langar en 1,5 m ef þær eru t.d. notaðar við grill eða annan lausan búnað.

Algengt er að gasslanga endist í 2-5 ár en það getur þó verið afar misjafnt og veltur m.a. á sólarálagi. Góð regla er að kanna reglulega hvort það séu komnar sprungur í slönguna, t.d. alltaf þegar skipt er um gaskút. Það er gert með því að beygja slönguna og horfa eftir sprungum á ytra byrði hennar. Ef það eru sprungur á henni þarf að skipta henni út.

Helstu öryggis- og áhættuþættir

Gasskynjarar

Alls staðar þar sem gas er notað eiga að vera gasskynjarar, hvort heldur er inni á heimilum eða í sumarbústöðum, fellihýsum, hjólhýsum eða húsbílum. Gasskynjarar eiga að vera nálægt búnaði og kútum og sem næst gólfi, t.d. á sökkli innréttinga, því gas leitar alltaf niður á við. Gumljós skal vera sýnilegt á gasskynjara og nauðsynlegt er að prófa virkni skynjarans reglulega með því að láta gas úr gaskveikjara leka út við hlið skynjarans. Endurnýja skal svo gasskynjara eftir þörfum.

Logavari

Logavari er öryggisbúnaður sem lokar sjálkrafa fyrir gasflæði að brennara ef loginn slokknar. Þessi búnaður á að vera til staðar í öllum lágþrýstum gastækjum sem notuð eru innandyra og eru CE stöðluð. Gangið úr skugga um að logavarinn sé til staðar þegar tækið er keypt.

Merking á húsnæði þar sem gas er geymt

Hjá söluaðilum út um allt land er hægt að fá miða til að merkja húsnæði þar sem gaskútar eru geymdir. Komi upp eldur er mikilvægt að slökkviliðsmenn geti áttað sig á hvort gaskútar eru í húsnæðinu því af þeim getur stafað mikil sprengihætta. Setjið límmiðann í augnhæð á hurð eða neðarlega í dyrakarm í útidyrum húsnæðis þar sem gaskútur er geymdur. Einnig skal setja límmiða á áberandi stað þar sem gaskútur er geymdur, svo sem á geymslur, garðhús, skápa og hólf.