Um leið og þú færð vitneskju um að eldur sé laus, hvort sem það kemur samstarfsfélögum eða frá brunaviðvörunarkerfinu, skaltu bregðast strax við án þess að hika og fara að næsta útgangi. Á leiðinni út skaltu drífa aðra samstarfsfélaga þína með þér. Hafðu í huga að ekki má nota lyftur.

Eldur veldur árlega miklu tjóni á heilsu og eignum fólks og fyrirtækja. Oft er vinnustaðurinn okkar annað heimili og afkoma heilu fjölskyldnanna undir því komin að fyrirtækin séu í rekstri. Reynslan sýnir að rekstrarstöðvun getur haft afdrifaríkari afleiðingar og valdið meira tjóni en eldsvoðinn sem slíkur og oft þarf ekki mikinn eld til að reksturinn stöðvist. Dæmi eru jafnvel um að fyrirtæki hafi þurft að hætta starfsemi í kjölfar eldsvoða. Það eru því ekki eingöngu hagsmunir eigenda og stjórnenda fyrirtækja að gæta fyllsta öryggis svo ekkert komi uppá á vinnustað heldur líka hagsmunir starfsmanna.

Forvarnir geta komið í veg fyrir, eða dregið verulega úr hættunni á slysum á fólki og eignatjóni af völdum elds. Það skiptir því miklu máli að kynna sér vel hvað hægt er að gera til þess að auka öryggi á vinnustaðnum. Fyrirtæki eru að sjálfsögðu mismunandi og starfsemin kallar á mismunandi leiðir til að koma í veg fyrir hættuástand og hvernig bregðast skuli við ef það kemur upp, en það þurfa allir að vera samstíga í því verkefni. Markmið eigin eldvarnaeftirlits fyrirtækja og stofnana er að bæta eldvarnir en það kemur ekki í stað eftirlits á vegum forvarnasviðs SHS. Hlutverk þess er að fylgjast rmeð því að fram fari virkt eldvarnaeftirlit í fyrirtækjum og stofnunum með heimsóknum og ráðgjöf.