Almenn notkun og sala á skoteldum til almennings er óheimil nema á tímabilinu 28. desember til 6. janúar (að báðum dögum meðtöldum), ef frá eru taldir skoteldar í flokki 1 sem leyfilegt er að nota allt árið. Smásala annarra skotelda er aðeins heimil á viðurkenndum sölustöðum gegn því að sótt hafi verið um leyfi.

Undir hugtakið skoteldar, skv. reglugerð 952/2003, falla m.a. flugeldar, blys, reyk-, lita-, lyktar- og hvellsprengjur og ýmiss konar skrauteldar. Í viðauka reglugerðarinnar er nánar fjallað um flokkun skotelda og leyfilega notkun hvers flokks fyrir sig, sem í aðalatriðum skiptast þannig:

  1. flokkur: Skoteldar sem skapa litla hættu og eru án aldurstakmarkana notenda.
  2. flokkur: Skoteldar sem henta til notkunar utanhúss í húsagörðum eða á minni svæðum.
  3. Skoteldar sem henta til notkunar á stórum opnum svæðum.
  4. Skoteldar sem ekki eru fullgerðir og/eða ekki eru ætlaðir til sölu til almennings.

Undanþegnir hinu almenna banni um notkun skotelda utan tímamarka eru framleiðendur og innflytjendur vegna prófunar á skoteldum, þeir sem hafa fengið leyfi fyrir skoteldasýningum og þeir sem hafa fengið sérstakt leyfi lögreglustjóra til að nota skotelda við leiksýningar, kvikmyndagerð og þess háttar. Á því tímabili sem almenn notkun skotelda er leyfð er meðferð þeirra þó alltaf bönnuð frá miðnætti til kl. 9.00 að undanskilinni nýársnótt.