Lögreglustjórum er heimilt að veita sérstök leyfi til flugeldasýninga. Útgáfa leyfis til sýningar er bundin því skilyrði að ákveðinn aðili hafi umsjón með sýningunni og að sérstakur skotstjóri annist framkvæmd hennar. Umsjónaraðili skal hafa ábyrgðartryggingu hjá viðurkenndu tryggingafélagi vegna mögulegra slysa á fólki og tjóns af völdum skoteldanna. Skotstjóri skal vera fullra 18 ára og hafa víðtæka þekkingu á skoteldum og reynslu til að annast skoteldasýningar. Ríkislögreglustjórinn getur sett sérstakar reglur um hæfnismat skotstjóra.

Umsóknum um leyfi til skoteldasýninga skal beina til lögreglustjóra í því umdæmi sem sýning er fyrirhuguð. Í leyfisumsókn skal tilgreina nafn skotstjóra, fyrirhugaðan sýningarstað, hvenær sýning hefst og hvenær henni ljúki. Tilgreina skal heildarmagn skotelda sem nota á, hvernig það skiptist eftir tegundaheitum og frá hvað framleiðanda og/eða innflytjanda þeir eru.

Lögreglunni ber að tilkynna slökkviliði, tilkynningarskyldunni, hafnar- og flugstjórnaryfirvöldum um flugeldasýningar. Jafnframt skal senda lögreglustjóranum í Reykjavík afrit af þeim leyfum sem gefin eru fyrir flugeldasýningum. Skilyrði til að veita leyfi fyrir flugeldasýningu er að fyrir liggi samþykki heilbrigðisnefndar fyrir sýningunni, sbr. reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Einnig skal fylgja umsögn sveitarstjórnar og slökkviliðsstjóra. Lögreglustjóri getur takmarkað leyfið við ákveðið magn og gerðir flugelda, afturkallað leyfi til sýninga hvenær sem er, eða gefið fyrirmæli um að sýningu skuli frestað.