Enginn má flytja inn skotelda í atvinnuskyni nema með leyfi ríkislögreglustjórans að undanskildum skoteldum í flokki 1. Innflutningsleyfi felur jafnframt í sér leyfi til heildsölu á skoteldum, en vilji innflytjandi koma upp smásölustað skal sækja um slíkt leyfi til lögreglustjóra ár hvert, enda fullnægi sölustaðir öryggiskröfum skv. 25. gr. reglugerðar um skotelda nr. 952/2003. Um geymslu á birgðum skal farið samkvæmt 1. mgr. 19. gr. Á sölustöðum er aðeins heimilt að selja skotelda frá þeim sem hafa leyfi til framleiðslu og innflutnings skotelda í atvinnuskyni. Undanskildir eru skoteldar í flokki 1. Innflutningur einstaklinga á skoteldum til eigin nota er bannaður.

Smásöluleyfi má aðeins veita fyrir tímabilið 28. desember til 6. janúar ár hvert og skulu umsóknir um slík leyfi berast lögreglustjóra a.m.k. 4 vikum fyrir áætlað sölutímabil. Leyfi til bæði innflutnings og smásölu skotelda verður því aðeins gefið út að umsækjandi sé fyrirtæki eða félagasamtök með virðisaukaskattsnúmer og tilgreindan ábyrgðarmann sem hefur sérþekkingu á skoteldum og hefur náð 18 ára aldri. Þeir sem starfa við skoteldasölu skulu hafa náð 18 ára aldri. Hafa skal í huga að öll sala á skoteldum til barna yngri en 12 ára er óheimil og öll meðferð barna á þeim skal vera undir eftirliti fullorðinna. Einnig er bannað að selja eða afhenda skotelda barni undir 16 ára aldri sé þess getið í leiðbeiningum með skoteldum.

Söluaðili þarf að láta A3 teikningu fylgja umsókn sem sýnir fyrirkomulag sölu og lagers skotelda. Sú teikning þarf að fá samþykki SHS. Hér að neðan má nálgast verklasreglurnar, sýnishorn af teikningum og grunnmyndir fyrir teikningar á pdf formi.