Eigið eftirlit og viðbragðsáætlun

Mikilvægt er að fyrirtæki og stofnanir séu með eigið eldvarnaeftirlit og viðbragðsáætlanir til að tryggja rétt viðbrögð og öryggi starfsmanna ef eldur verður laus.

Eigin viðbragðsáætlanir

Viðbragðs- og rýmingaráætlanir í byggingum eru til að tryggja öryggi starfsfólks og almennings. Ef hættuástand skapast verða viðbrögð að vera rétt og sjálfráð. Allar byggingar ættu að hafa viðbragðsáætlanir vegna hættuástands. Sérstök ástæða er til að sinna því á fjölmennum vinnustöðum eða þar sem almenningur kemur og gerir ráð fyrir því að það sé öruggt þó einhver óhöpp verði eða hættuástand skapast. Byggingarreglugerð gr. 137.1. fjallar m.a. um eftirfarandi: Verði eldur laus skulu allir komast hindrunarlaust út af eigin rammleik eða með aðstoð annarra.

Eigendur og forsvarsmenn bygginga bera ábyrgð á að viðbragðs og rýmingaráætlun sé til staðar. Hægt er að vinna að henni á vettvangi öryggisnefndar fyrirtækja en einnig er hægt að afla sér aðstoðar hjá brunahönnunar og öryggisfyrirtækjum eða leitað upplýsinga hjá forvarnasviði slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Gera þarf rýmingaráætlun fyrir byggingar þar sem fram kemur hvernig flóttaleiðir eru skipulagðar og skipulag á skyndilegri rýmingu húsnæðis vegna hættuástands. Byggingar og starfsemi í þeim er mismunandi og því þarf að gera áætlun sem hentar á hverjum stað. Víðast gilda sömu grunnatriði en fyrirkomulag og lausnir á sérstökum vandamálum þarf að aðlaga eftir aðstæðum. Hér er að finna leiðbeiningar og ýmis skjöl er varða eigin viðbragðsáætlanir:

Leiðbeiningar um fyrstu viðbrögð í ýmsum óhöppum

Eldur – boð frá brunaviðvörunarkerfi

 1. Ef brunaviðvörunarkerfi er í byggingunni, en er ekki farið í gang skaltu ýta á næsta brunaboða.
 2. Hringja í 112.
 3. Fara greiðfærustu flóttaleið að söfnunarsvæði. Rýma húsið / bjarga fólki.
 • Ekki nota lyftur. Þær geta fyllst af reyk.
 • Ef ekki er hægt að fara út vegna reyks eða annars farartálma skal loka hurðum og kalla eftir aðstoð úr glugga eða nota síma. Halda ró sinni og bíða.
 • Slökkva með slökkvitæki, teppi eða brunaslöngu ef hægt er. Loka hurðum og gluggum þar sem reykur er til að takmarka tjón.
 • Taka á móti viðbragðsaðilum og gefa upplýsingar.

Brunaboð – þekktar ástæður, engin hætta

 1. Stöðva bjöllur – stöðva rýmingu
 2. Hringja í vaktstöð, gefa upplýsingar.
 3. Upplýsa fólk á staðnum um atvikið.
 4. Skráning í þjónustubók brunaviðvörunarkerfis.

Eiturefni og mengun, hættuástand

 • Ef brunaviðvörunarkerfi er til staðar en er ekki farið í gang skaltu ýta á næsta brunaboða.
 • Hringja í 112.
 • Fara greiðfærustu flóttaleið að söfnunarsvæði. Rýma hættusvæði / bjarga fólki. Fara í öruggt skjól.
 • Hver er vindáttin, hvert er best að flýja?
 • Stöðva frekari mengun ef hægt er. Loka hurðum og gluggum.
 • Taka á móti viðbragðsaðilum og gefa upplýsingar.
 • Stórt mengunarsvæði. Hlusta á útvarp. Skoða leiðb. almannavarna www.almannavarnir.is

ATH! Ef fyrirtæki framleiða eða nota hættuleg eða mengandi efni skal nota reglur Vinnueftirlitsins www.vinnueftirlit.is og nota sérstakar viðbragðsáætlanir.

Vatnsflóð – vatnsleki

 • Loka fyrir vatnsstreymi. Hafa inntaksloka merkta.
 • Hringja í 112.
 • Hringja í húsverði – stjórnendur.
 • Hringja í tryggingafélag.
 • Forða verðmætum frá lekasvæði
 • Opna niðurföll – ausa og hreinsa upp vatn.

 Rafmagnsleysi

 • Hafa vasaljós á ákveðnum stöðum.
 • Rafmagnstafla aðgengileg og öryggi merkt.
 • Er neyðarlýsing í byggingunni? / Önnur upphitun?
 • Hringja í húsverði – forsvarsmenn.
 • Huga að börnum, eldra fólki og sjúklingum.
 • Hafa samband við orkuveitu.
 • Hlusta á útvarp.

Veikindi, slys, andlát eða önnur áföll

 • Leiðbeiningar um skyndihjálp og endurlífgun aðgengilegar.
 • Hringja í 112.
 • Taka á móti viðbragðsaðilum.
 • Hafa samband við forsvarsmann.
 • Hafa samband við aðstandendur.
 • Huga að fólki sem hefur upplifað erfiðan arburð og þarf stuðning.
 • Er þörf á öðrum stuðningi.

Árás – innbrot – lögregluaðgerðir

 • Er brotamaður enn á vettvangi?
 • Gæta að eigin öryggi og annars fólks.
 • Hafa samband við lögreglu í síma 112
 • Gefa viðtakanda símtals upp hvaðan hringt er nafn og kennitölu. Lýsa aðstæðum sem nákvæmast.
 • Loka fyrir óþarfa umgang um vettvang svo ekki sé hætta á að hugsanlegum sakargögnum verði spillt eða að fólk sé í hættu.
 • Taka á móti viðbragðsaðilum.
 • Huga að áfallahjálp og stuðningi.
 • Skoða leiðb. á vef lögreglu. www.logreglan.is

Náttúruhamfarir

Fárviðri

 • Heftið fok lausra muna.
 • Fullvissið ykkur um að öllum gluggum og hurðum sé tryggilega lokað. Aflýsið ferðalögum og mannamótum og sjáið til þess að börn séu ekki ein áferð.
 • Byrgið glugga eða setjið öryggisfilmu á gler til að koma í veg fyrir skæðadrífu glerbrota ef rúða brotnar.
 • Vinnið eða dveljið ekki undir stórum gluggum ef hætta er á fárviðri.
 • Hlustið á tilkynningar í útvarpi og skoðið leiðb. á vef almannavarna www.almannavarnir.is

Jarðskjálftar

 • Við jarðskjálfta getur verið hættulegt að hlaupa út úr byggingu. Reynið frekar að leita skjóls og vera kyrr á öruggum stað innandyra t.d. út  í horni við  burðarveggi fjarri gluggum. KRJÚPA – SKÝLA – HALDA. Ef þú er sofandi og vaknar upp við jarðskjálfta, haltu þá kyrru fyrir og notaðu  kodda til að verja höfuðið.
 • Varist húsgögn og þunga hluti sem geta hreyfst úr stað.
 • Haldið ykkur fjarri ofnum og kynditækjum sem hendast út af festingum.
 • Varist stórar rúður sem geta brotnað.
 • Við jarðskjálfta geta hlutar úr byggingunni brotnað af. Haldi ykkur fjarri þeim stöðum í húsinu þar sem hætta er á hrynjandi byggingahlutum.
 • Ekki nota lyftur. Þær geta stöðvast.
 • Hlustið á tilkynningar í útvarpi og skoðið leiðb. á vef almannavarna www.almannavarnir.is

Eldgos

 • Eldgos geta hafist fyrirvaralaust, en gera þó oftast boð á undan sér, t.d. með jarðskjálftum og óróa sem greinast á mælum.
 • Af eldgosum getur stafað hætta af hraunrennsli og öskufalli. Öskufall úr einu gosi getur borist um allt land eftir veðri. Gjóskan getur verið varasöm vegna eldinga, eiturgufa og eiturefna.
 • Dýrum er sérstök hætta búin af öskufalli.
 • Öskuský getur truflað flugsamgöngur og öskufall getur lokað umferð á landi.
 • Hlustið á tilkynningar í útvarpi og skoðið leiðb. á vef almannavarna www.almannavarnir.is

Eigið eldvarnaeftirlit

Í litlum og meðalstórum fyrirtækjum er æskilegt að ábyrgðarmenn brunavarna sjái sjálfir um eldvarnareftirlitið og séu þ.a.l. meðvitaðir um öryggi starfmanna sinna og viðskiptavina. Í stærri fyrirtækjum og/eða þar sem áhætta er mikil getur verið nauðsynlegt að fá verkfræðistofu eða aðra fagaðila til aðstoðar við skipulagningu, eða til að sjá alfarið um alla þætti eftirlitsins. Þegar talað er um eigið eldvarnaeftirlit í fyrirtækjum og stofnunum er átt við að eigandi og/eða forráðamaður axli þá ábyrgð sem lög og reglugerðir kveða á um og að eftirlit með brunavörnum bygginga sé skriflegt með gátlistum og að minnsta kosti mánaðarlegt. Í þeim tilfellum þar sem unnið er með eldfim eða hættuleg efni getur verið nauðsynlegt að eftirlitið sé tíðara.

Hér er að finna leiðbeiningar og ýmis skjöl er varða eigið eldvarnaeftirlit.

Framkvæmd

Í reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði segir að eftirlit skuli vera daglegt og reglubundið, á eigin vegum og fyrir eigið fé, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða stofnun. Eftirlitið getur verið framkvæmt af eigendum/forráðamönnum, starfsmönnum viðkomandi fyrirtækis eða utanaðkomandi fagaðilum. Eins er nauðsynlegt að í hverju fyrirtæki sé til áætlun um hvernig brugðist skuli við boðum frá brunaviðvörunarkerfi og hvernig best sé staðið að rýmingu byggingar í eldsvoða.

Verkaskipting eiganda og rekstraraðila

Í mörgum tilfellum er rekstraraðili fyrirtækis ekki sá sami og eigandi byggingar en það er alveg skýrt í lögum að það er eigandi byggingarinnar sem ber ábyrgð á því að brunavarnir séu í lagi. Í þeim tilfellum sem þetta er ekki sami aðili þarf verkaskipting á milli þeirra að vera skýr og gátlistar eru nauðsynlegir til að ná fram markvissu eftirliti. Eðlilegt, og oft á tíðum nauðsynlegt, er að eigandi byggingar feli leigutaka eða rekstraraðila að sjá um ákveðna þætti eldvarna. Allt sem t.d. snýr að daglegri umgengni og öryggi fólks heyri þannig beint undir hann þar sem ekki er auðvelt fyrir húseiganda að sjá um eftirlit með slíku. Bestur árangur næst með góðri samvinnu og eftirfarandi verkaskiptingu milli aðila:

Ábyrgð eiganda

 • að húsnæðið sé í góðu ástandi og í samræmi við samþykktar teikningar
 • að allar meginbrunavarnir séu í lagi eins og lög og reglur kveða á um
 • að dyr og björgunarop séu opnanleg innanfrá án lykils eða annarra verkfæra
 • að ÚT- og neyðarlýsing sé til staðar og í lagi
 • að brunahólfun sé í lagi, brunahólfandi dyr virki rétt og séu þéttar
 • að brunaviðvörunar-, vatnsúða- og önnur slökkvikerfi og reyklosunarbúnaður séu í lagi

Ábyrgð rekstraraðila

 • að allar flóttaleiðir séu greiðfærar þannig að skjót rýming úr byggingunni sé tryggð
 • að ÚT-ljós séu sílogandi þannig að fólk rati örugglega út ef upp kemur eldur
 • að reykskynjarar séu virkir og rafhlaðan í lagi
 • að ruslsöfnun sé í lágmarki og aðgangur að handslökkvitækjum og öðrum slökkvibúnaði óheftur
 • að upplýsa eiganda húsnæðis strax ef eitthvað kemur upp sem rýrir brunavarnir

Helstu þættir eigin eldvarnaeftirlits

Að ýmsu er að hyggja þegar hefja á eigið eldvarnaeftirlit en hér á eftir verður fjallað um níu meginþætti sem tryggja þarf til þess að eldvarnaeftirlit geti skilað sem mestum árangri. Þeir eru:

 1. Stefna
 2. Ábyrgð
 3. Áhættustjórnun
 4. Fræðsla og þjálfun
 5. Byggingin og starfsemin
 6. Eldvarnabúnaður
 7. Skipulag og framkvæmd
 8. Reglur og hjálpargögn
 9. Eftirfylgni

Stefna

Eldvarnastefna er yfirlýsing og skuldbinding stjórnenda/eigenda um að halda eldvörnum í lagi. Stefnan setur rammann um eldvarnastarf fyrirtækisins og þarf því í grófum dráttum að lýsa eigin eldvarnaeftirliti fyrirtækisins, eða að minnsta kosti markmiðum þess og vísa þá skýrt í önnur skjöl um innihaldið.

Ábyrgð

Samkvæmt reglugerð um eigið eldvarnaeftirlit í atvinnuhúsnæði er ábyrgð eigenda og forráðamanna skipt. Þegar eigandi og forráðamaður er ekki sami aðilinn þarf hlutverk hvers og eins að vera skýrt og samkvæmt skriflegum samningi sem gerður er á milli eiganda og forráðamanns fyrirtækis. Samkvæmt lögum um brunavarnir er eigandi húsnæðis ábyrgur fyrir því að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem lög og reglugerðir kveða á um. Einnig geta ákvæði á samþykktum aðaluppdráttum og/eða brunahönnunargögnum sett kvaðir á eiganda og forráðamann umfram lög og reglugerðir.

Áhættustjórnun

Að vinna samkvæmt hugmyndafræði áhættustjórnunnar auðveldar að greina, meta og minnka eldhættu. Fyrir minni fyrirtæki með einfaldari eldhættur getur verið nóg að hafa þessa hugmyndafræði í huga í daglegri starfsemi og við reglubundið eftirlit með eldvörnum (með gátlistum), meðan stærri fyrirtæki með flóknari áhættu þurfa að gera ítarlegar áhættugreiningar og vinna með formlegum hætti að því að halda áhættu undir viðunandi mörkum.

Viðunandi er hér nokkuð afstætt hugtak því áhætta getur verið óhjákvæmilegur fylgifiskur vissrar starfsemi og getur þar með talist viðunandi. Áhætta er hins vegar aldrei viðunandi nema allar einfaldar aðgerðir til áhættuminnkunar hafi verið framkvæmdar og þeir sem taki áhættuna séu meðvitaðir um hana.

Í áhættugreiningarhlutanum er skoðað hvar og hvernig hætta er á að eldur kvikni og hverjar afleiðingarnar gætu orðið fyrir starfsemina,starfsmennina,viðskiptavinina og umhverfið. Í áhættuviðmiðshlutanum er leitast við að svara því hvort eldvarnir séu nægilega góðar með tilliti til niðurstaðna úr greiningarvinnunni. Í áhættuminnkun felast ákvarðanir um framkvæmd með beinum aðgerðum til að bæta eldvarnir, en líka stöðugt eftirlit með því að áhættumatið (áhættugreining og áhættuviðmið) lýsi veruleikanum hverju sinni. Nauðsynlegt getur verið að leita til þeirra sem hönnuðu bygginguna, forvarnasviðs slökkviliðs eða viðurkenndra fagaðila. Að sjálfsögðu þarf að kynna sér bygginguna sjálfa, innihald hennar, starfsemi og umhverfi.

Fræðsla og þjálfun

Upplýsingar um áhættuþætti verða að berast skilmerkilega til allra starfsmanna, sem og viðbragðs- og rýmingaráætlun. Þetta á einnig við um þá sem koma til vinnu vegna viðhalds í skamman tíma. Með nákvæmum upplýsingum um áhættuþætti takmörkum við hættuna á því að eldur geti kviknað.

Á hverjum vinnustað ætti að vera til viðbragðs- og rýmingaráætlun. Tilgangur hennar er að tryggja betur öryggi þeirra sem í byggingunni dvelja ef eldur kemur upp. Áætlunin byggir mikið á eigin áhættugreiningu og niðurstöðurnar ættu að vera aðgengilegar lykilstjórnendum og trúnaðarmönnum fyrirtækisins. Á þeim stöðum sem fáir vinna gæti áætlun verið A4 blað með einföldum leiðbeiningum. Í stærri og flóknari byggingum skal rýmingaráætlun vera vel skipulögð og æfð, þannig að allir þekki sitt hlutverk ef eldur kemur upp.

Byggingin og starfsemin

Meta þarf ástand bygginga með tilliti til eldvarna. Skoða þarf hvort byggingar séu í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti og leyfi hafi verið fengið fyrir breytingum, bæði á byggingum og starfsemi. Hægt er að fá afrit af samþykktum aðaluppdráttum hjá viðkomandi byggingarfulltrúa. Ef fyrirhugaðar eru breytingar á byggingu eða starfsemi getur verið nauðsynlegt að sækja um nýtt byggingarleyfi.

Eldvarnabúnaður

Nauðsynlegt er að hafa upplýsingar um virkni öryggiskerfa og hvernig hægt er að uppgötva bilanir í kerfunum og bregðast við þeim. Upplýsingarnar skulu settar fram á skýran og einfaldan hátt og lýsa almennri virkni öryggiskerfanna sem eru í byggingunni, hvernig best er að tryggja virkni þeirra og hvernig hægt er að átta sig á bilunum.

Oft er um að ræða miklar fjárfestingar sem mikilvægt er að þjóni tilgangi sínum þegar á þarf að halda og einnig þarf að tryggja að rekstrarkostnaði sé haldið í lágmarki. Þau öryggiskerfi sem gera þarf grein fyrir eru til dæmis brunaviðvörunarkerfi, vatnsúðakerfi, önnur slökkvikerfi, til dæmis í eldhúsum, og sjálfvirk reyklosunarkerfi. Lýsingar á kerfunum þurfa að vera greinargóðar og fyrir hendi þurfa að vera yfirlitsmyndir og teikningar af þeim ásamt upplýsingum um hvernig þau eiga að virka.

Skipulag og framkvæmd

Mikilvægt er að skipaður sé umsjónarmaður sem heldur utan um allt sem viðkemur eldvörnum fyrirtækisins eða stofnunarinnar. Umsjónarmaðurinn þarf að þekkja vel alla áhættuþætti í byggingunni, hverjir yrðu í hættu ef til eldsvoða kæmi og sjá um að starfsfólk fái tilskilda fræðslu og þjálfun. Við mánaðarlega eldvarnaskoðun er nauðsynlegt að hafa viðeigandi gátlista og ljóst þarf að vera hver á að lagfæra það sem betur má fara og fylgja því eftir að lokið sé við úrbætur.

Þó að tíðni gátlistaskoðana sé bara mánaðarlega þarf að hafa ofangreind atriði í huga alla daga til að eigið eldvarnaeftirlit skili sem bestum árangri og bæta tafarlaust úr því sem betur má fara. Þetta gildir sérstaklega um allt sem varðar örugga rýmingu.

Reglur og hjálpargögn

Eftirfylgni

Gera þarf greinargóða lýsingu á því hvernig brugðist skuli við og við hverja skal hafa samband ef eldvarnir eru ekki sem skyldi og gera þarf lagfæringar eða tilkynna um bilun, m.a. vegna lagfæringar á brunahólfunum, eldvarnahurðum, slökkvitækjum og brunaslöngum, ÚT- og neyðarlýsingu og brunaviðvörunarkerfi.