Nauðsynlegt er fyrir hönnuði að huga vel að brunavörnum í kringum lyftur því þeim geta fylgt ýmis vandamál. Eitt það alvarlegasta er að lyftustokkurinn getur borið reyk á milli hæða og brunahólfa. Í byggingareglugerðinni (201. gr.) segir: „Í byggingum sem eru 2 hæðir eða meira og hýsa opinbera starfsemi, hótel, samkomuhús, veitingastaði og annað þjónustuhúsnæði, skrifstofur og verslanir skal vera lyfta”. Ennfremur segir: „Í fjölbýlishúsum sem eru 4 hæðir eða meira skal vera lyfta”.

Það eru nokkur atriði um brunavarnir í lyftum í reglugerðinni: ,,Lyftuhús ásamt rými fyrir drifbúnað og vélar skulu vera sjálfstæð brunahólf (AEI-60) með EI-C30 hurðum og hlerum. Sé lyfta hluti af stigahúsi skal lyftuhúsið a.m.k. vera úr A-efni. Ef lyfta nær niður í kjallara þá skal gengið úr henni og í um brunastúku. Lyftur má ekki nota í eldsvoða og skal aðvörun um það komið fyrir við lyftudyr. Brunavarnarlyfta, sem slökkvilið getur nýtt við björgun og ætluð er sem flóttaleið, skal gerð samkvæmt ÍST EN 81-72 um brunavarnarlyftur. Slík lyfta skal ætíð hafa tvo óháða straumgjafa (201.15) .“

Lyftur og brunahólf

Það vekur furðu að samkvæmt reglugerðinni þurfa lyftuhurðir ekki að vera reykþéttar. Það er ekki vandamál ef lyfta gengur ekki á milli brunahólfa, t.d. þegar lyfta og stigahús eru í sama brunahólfinu og aðskilin frá öðrum brunahólfum hússins. Víða eru aðstæður hinsvegar þannig að lyftur opnast inn í ganga eða rými á hverri hæð sem hvert um sig er sér brunahólf. Lyftan rýfur þar af leiðandi þessa brunahólfun og reykur getur þannig átt greiða leið milli hæða um lyftustokkinn. Þar sem svo háttar til er nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða. Ef lyfturnar opnast inn í ganga eða rými sem eru hluti af rýmingarleiðum þá er hægt að vitna í 207. gr. um ganga í flóttaleið því þar segir að allar dyr sem opnast að rýmingarleiðum skuli a.m.k. vera EI-S30. Þá er hægt að gera kröfur um að lyftudyr séu EI-CS30 því C-ið er þegar komið í gr. 206, eins og áður er getið. Málið er hinsvegar ekki svona einfalt þar sem það virðist ekki vera auðvelt að fá lyftuhurðir sem uppfylla þessar kröfur.

Það eru þrír möguleikar til að uppfylla lágmarksákvæði varðandi lyftur og brunahólf. Sú fyrsta er að koma lyftum þannig fyrir í húsi að þær rjúfi ekki brunahólf eða samstæðuskil. Önnur leiðin er að lyftudyr uppfylli ákvæði um að vera EI-CS30. Þriðja leiðin hefur verið farin þegar annað er ekki hægt en hún felst í því að annaðhvort reyklosa lyftustokkinn upp um þakið í gegnum lúgu með sjálfvirkri opnun eða blásara, eða mynda yfirþrýsting í lyftustokknum með því að blása útilofti inn í hann og koma þannig í veg fyrir að reykur berist milli hæða. Það er augljóst að fyrsta leiðin er best og hana ætti að fara allstaðar þar sem því verður við komið. Ef nauðsynlegt reynist að nota þriðju leiðina verður það ekki gert nema með aðstoð sérfræðinga. Einnig er nauðsynlegt að hafa í huga að ekki má eiga neitt við lyftustokk nema að fengnu samþykki Vinnueftirlits ríkisins. Reglur Vinnueftirlitsins eru skýrar að því leyti að ekkert má vera í lyftustokknum annað en það sem tilheyrir lyftunni og enginn má fara inn í lyftustokkinn til viðhalds og eftirlits nema aðili sem hefur til þess réttindi og leyfi. Þannig að ef sú leið er valin að reyklosa lyftustokkinn á vélrænan hátt þarf að bera þær aðgerðir undir Vinnueftirlit ríkisins og leita umsagnar.

Til þess að koma í veg fyrir að lyftur séu notaðar í eldsvoða, eins og bannað er í reglugerð nema um sé að ræða brunavarnalyftu, er í viðbót við aðvörun við allar lyftudyr eðlilegt að lyftur séu þannig útbúnar að við boð frá viðvörunarkerfi fari þær niður á 1. hæð og stöðvist þar. Þó þarf að hafa í huga hvort sú staðsetning henti með tilliti til reyklosunar.