Hér á eftir verður fjallað um nokkur atriði sem hönnuðir velta oft vöngum yfir varðandi rýmingarleiðir úr íbúðarhúsum. Í sumum tilfellum getur verið um vafaatriði að ræða og ekki alveg ljóst hvað átt er við með reglugerðarákvæðunum og er þá gerð grein fyrir skilningi eldvarnareftirlitsins á þeim atriðum.

Fjöldi rýmingarleiða

Í byggingarreglugerðinni fjallað um einbýlis-og sérbýlishús í grein 103 og um fjölbýlishús í grein 104. Þó nokkur munur er á ákvæðum um rýmingarleiðir í sérbýli annarsvegar og í fjölbýli hinsvegar. Í sérbýli er t.d. nægjanlegt að hafa einar dyr út og síðan björgunarop úr svefnherbergjum og dagrými, en í fjölbýli þarf að hafa tvær útgöngudyr þar sem aðrar mega vera út á svalir. Í raun þýðir þetta að fjölbýlishús á tveimur hæðum þarf að hafa svalir úr íbúðum á efri hæð en ekki er nauðsynlegt að hafa svalir á 2. hæð í tveggja hæða sérbýlishúsum þar nægja björgunarop úr svefnherbergjum og dagdeild. Ef svefnrými í sérbýlishúsi er sérstakt brunahólf með EI-60 veggjum og EICS-30 hurðum er nægjanlegt að hafa aðeins eitt björgunarop í rýminu.

Tryggilega aflokað rými

Í grein103.10 í byggingarreglugerð er fjallað um björgunarop í sérbýlishúsum. Þar stendur m.a.: „Björgunarop skulu vera nægilega mörg og þannig staðsett að íbúar geti auðveldlega bjargað sér út af eigin rammleik. Í svefndeild skal vera minnst eitt björgunarop og annað úr dagdeild. Sé svefndeild ekki tryggilega aflokuð frá öðrum hlutum hússins skal vera björgunarop í hverju svefnherbergi”. Skilningur eldvarnareftirlits SHS er sá að „tryggilega aflokað” þýði hefðbundna innveggi og reykþétta innihurð, þ.e.a.s. að ekki sé gerð krafa um brunahólfandi veggi né hurð. Þess skal getið að von er á nánari reglum um þetta atriði frá Brunamálastofnun innan tíðar sem gæti breytt þessari afstöðu eldvarnareftirlitsins.

Björgunarsvæði slökkviliðs

Oft lenda hönnuðir í vandræðum með að koma fyrir björgunarsvæði slökkviliðs við fjölbýlishús vegna landhalla eða annarra aðstæðna á lóð. Í grein 63.2 segir: „ Meðfram húsum sem eru hærri en 4 hæðir og kjallari skulu vera merkt björgunarsvæði nema því aðeins að úr öllum brunahólfum í húsinu sé aðgangur að öryggisstigahúsi”.

Svalagangar

Þegar búið er að loka opnum svalagöngum með gleri er að mati eldvarnareftirlits eðlilegt að ákvæði reglugerðar um að hámarkslengd svalaganga frá íbúðardyrum að stigahúsdyrum fari ekki yfir 15 metra sé orðið að brunaöryggislegu ákvæði og mun því verða framfylgt þar sem það á við.