Á undanförnum árum hefur töluvert verið byggt af húsum hér á landi með mjög stórum gluggum og dæmi eru um að heilar húshliðar séu að mestu leyti gerðar úr gleri. Augljóst er að sambrunahætta milli brunahólfa eykst umtalsvert, og sérstaklega á milli hæða, eftir því sem meira er notað af gleri í útveggi. Sambrunahætta er að sjálfsögðu einnig fyrir hendi ef stutt er á milli glugga í láréttu plani t.d. hornrétt í innhornum húsa og á gagnstæðum veggjum sem liggja nálægt hvor öðrum.

Á meðan ekki eru til reglur um þessi atriði hér á landi mun forvarnarsvið SHS hafa til hliðsjónar sænskar reglur sbr. „Brandskyddshandboken” frá Lunds Tekniska Högskola. Með fjarlægð milli glugga (glerja) er átt við byggingarhluta samsvarandi a.m.k. EI-60. Miðað er við málsetningu milli glerja sem þýðir að karmar úr timbri, áli og stáli geti í flestum tilvikum reiknast sem hluti af fjarlægð milli glerja. Gert er ráð fyrir því að hefðbundið tvöfalt einangrunargler hafi enga brunamótstöðu. Samkvæmt þessari skilgreiningu eru eftirfarandi fjarlægðir samþykktar:

  • Lóðrétt fjarlægð milli glugga (glerja) í sitthvoru brunahólfi eða brunasamstæðu: 1.2 metrar.
  • Lárétt stysta fjarlægð milli glugga (glerja) í innhorni (hornrétt) í sitthvoru brunahólfi eða brunasamstæðu: 2.0 metrar.
  • Lárétt fjarlægð milli glugga (glerja) í gagnstæðum veggjum (samsíða) í sitthvoru brunahólfi eða brunasamstæðu: 5.0 metrar.

Ofangreindar fjarlægðir eiga við þar sem hægt er að koma við tækjum slökkviliðs og brunaálag er svipað eða minna en búast má við í íbúðarhúsi. Að öðrum kosti skal beita aðferðum brunahönnunar sbr. gr. 141 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 til að tryggja öryggi hússins.

Lokun svalaganga

Algengt er að hanna fjölbýlishús með svokölluðum svalagöngum. Þá er átt við að gengið sé úr stigahúsi, sem ýmist er opið eða lokað, út á opinn gang á hverri hæð og þaðan inn í íbúðir. Ef þessir svalagangar eru lokaðir, t.d. með gleri, þarf að gera ráð fyrir reyklosun út undir bert loft. Þannig þarf reykur sem hugsanlega kemur úr íbúð að komast út undir bert loft áður en hætta er á að hann fari inn í næstu íbúð t.d. um opinn glugga. Hönnunarforsendur fyrir slíka reyklosun væri þá þannig að hún væri nægjanlega afkastamikil til að taka við reyk úr íbúð sem liggur að ganginum miðað við hefðbundið brunaálag, að teknu tilliti til stærða á gluggum og hurðum, og koma þeim reyk út undir bert loft. Annar kostur er að hafa allar hurðir að íbúðum EICS-30 og alla glugga E-30 án opnanlegra faga, þ.e. að hanna ganginn eins og hann væri lokaður.