Tækifærisskemmtanir í byggingum

Verklagsreglur þessar fjalla um tækifærisskemmtanir í byggingum sem hannaðar eru til annarra eða takmarkaðri nota en fyrirhuguð samkoma felur í sér. Markmið reglnanna er að tryggja líf og öryggi fólks á slíkum samkomum til jafns við samkomur sem haldnar eru í húsnæði sem er til þess hannað og byggt. Getur þetta t.d. átt við um íþróttahús sem nota á til tónleikahalds, sýningar eða fjölmennar samkomur, eða um byggingu sem ekki er hugsuð til samkomuhalds eins og t.d. vöruskemmu eða flugskýli. Slökkvilið gefur ekki jákvæða umsögn til lögreglustjóra vegna tækifærisleyfa nema þessum reglum sé fylgt. Sjá: Verklagsreglur um tækifærisskemmtanir.

Byggingaleyfisumsóknir

Verklagsreglur þessar eiga við um byggingarleyfisumsóknir þar sem brunahönnun er gerð af öðrum aðila en aðalhönnuði. Reglurnar fjalla um á hvern hátt málsmeðferð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) skuli háttað við yfirferð brunahönnunarskýrslna og aðaluppdrátta brunahannaðra húsa og hvert samþykktarferli slíkra mála skuli vera. Markmið reglnanna er að stuðla að traustari brunavörnum með því að festa í sessi markvissari málsmeðferð við rýni slökkviliðs á brunahönnunargögnum ásamt því að tryggja að brunavarnir sem brunahönnuður leggur til skili sér á aðaluppdrætti. Sjá: Verklagsreglur um brunahönnun.

Samkomuhús – samkomusalir

Leiðbeiningar þessar eru fyrir eigendur/umráðamenn og leigjendur samkomusala. Þær eru hugsaðar til að vernda líf, heilsu fólks, umhverfi og eignir gegn eldsvoða. Sú forgangsröðun er í samræmi við lög um brunavarnir nr. 75/2000 og leiðarljós slökkviliðsins við að gæta almannaheilla. Sjá: Leiðbeiningar vegna samkomusala.

Slökkviliðslyftur

Slökkviliðslyftur eiga að vera til staðar í öllum háhýsum sem eru a.m.k. 23 metra há. Slökkviliðslyftum er ætlað að flytja slökkviliðsmenn og búnað þeirra örugglega á vettvang elds í háhýsi. Lyfturnar má nota dags daglega sem fólks- og vöruflutningalyftur. Sjá: leiðbeinandi reglum um stigleiðslur.

Stigleiðslur

Sigleiðsla er lóðrétt vatnsleiðsla í stigahúsum sem hægt er að tengja við dælur slökkviliðs og slöngur slökkviliðs á hverri hæð í þeim tilgangi að auðvelda slökkviliði að koma slökkvivatni upp á brunahæð. Sjá: leiðbeinandi reglum um stigleiðslur.

Fjarskipti í stórum byggingum

Tetra fjarskiptakerfið er ráðandi hjá björgunar- og vaktfyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu. Slökkvilið, sjúkraflutningamenn, lögregla og björgunarsveitir treysta eingöngu á þennan fjarskiptabúnað í dag og sífellt fleiri einkafyrirtæki hafa tekið slíkan búnað í notkun bæði fyrir starfsmenn, vaktmenn og öryggisverði.

SHS hefur tryggt að Tetra fjarskipti náist á öllu útkallssvæði sínu. Ef byggingar eru þannig úr garði gerðar að ekki næst samband inni í þeim vegna veggjaþykktar, einangrunar eða annarra ástæðna verða eigendur þeirra að tryggja að fjarskipti geti þrátt fyrir það farið eðlilega fram. Slíkt er hægt að gera með sérstökum endurvarpa eða svokölluðum lekum coax-streng. Nánar um Tetra fjarskiptakerfið í leiðbeinandi reglum um fjarskipti í stórum byggingum.

Aðgengi að fyrirtækjum, úðakerfum og neyðarstigagöngum

Við eldsvoða þarf slökkvilið oft að hafa aðgang að fyrirtækjum, klefum sjálfvirkra úðakerfa og neyðarstigagöngum. Almennt eru hurðir að þessum stöðum nokkuð öflugar og því seinlegt að brjótast þar inn og skaðinn sem af því hlýst allnokkur. SHS hefur þá stefnu að geyma ekki hjá sér lykla að fyrirtækjum og stofnunum. Sjá: Leiðbeinandi reglur um aðgengi að fyrirtækjum, úðakerfum og neyðarstigagöngum.