Almannavarnir eru samnefnari viðbragða og úrræða þegar hættu- og neyðarástand skapast í samfélaginu. Við minniháttar slys bregst hin daglega neyðarþjónusta við með hefðbundnum hætti, en við almannavarnaástand fara neyðarþjónustan og aðrir að vinna eftir einu samræmdu skipulagi, þ.e. neyðarskipulagi almannavarna. Undir neyðarþjónustuna fellur lögregla, slökkvilið, björgunarsveitir, sjúkrahús, Landhelgisgæslan, neyðarsímsvörun, líknarfélög (t.d. Rauði krossinn) og starfsmenn sveitafélaga (t.d. bæjarstjórar og tæknideildir).

Almannavarnanefndir, hver í sínu héraði eða umdæmi, skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna tjóns eða hættu sem skapast hefur í þeirra umdæmi, undir stjórn lögreglustjóra. Þegar áfall hefur orðið af þeirri stærðargráðu að úrræði innan héraðs eða umdæmis duga ekki til leita almannavarnanefndir eftir utanaðkomandi aðstoð til Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Almannavarnadeildin er stofnun undir dómsmálaráðuneytinu sem samræmir starfsemi almannavarna á landsvísu og stýrir utanaðkomandi aðstoð frá ríkisstofnunum, öðrum umdæmum eða alþjóðlegri aðstoð.

Í neyðarástandi þegar mikill fjöldi fólks þarf á hjálp að halda þarf að virkja marga til þess að veita eða skipuleggja hjálpina. Því fleirum sem þarf að hjálpa, því umfangsmeiri verður aðstoðin. Reynslan bæði hérlendis og erlendis hefur sýnt að mest munar um þá sem eru nærstaddir hverju sinni þegar áfallið dynur yfir og rétta þarf fólki hjálparhönd. Þannig gegnir hver og einn maður mikilvægu hlutverki í almannavörnum. Almannavarnir bregðast strax við hættu- eða neyðarástandi, en hafa skal í huga að ef margir slasast eða verða heimilislausir getur orðið bið á því að öllum berist hjálp. Því þarf fólk að vera undir það búið að bjarga sér sjálft þar til hjálp berst.

Alþjóðlegt merki almannavarna auðkennir starfsfólk þeirra, búnað, húsnæði og skýli.

Almannavarnir höfuðborgarsvæðisins

Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins var stofnuð í janúar 2004. Áður störfuðu þrjár almannavarnanefndir á svæðinu; almannavarnanefnd KMRS (Kjós, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes), almannavarnanefnd Kópavogs og sameiginleg almannavarnanefnd Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Álftaness.

Hvert sveitarfélag skipar einn aðalmann í nefndina auk framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og tvo til vara. Auk þess situr fulltrúi frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nefndinni. Famkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins er slökkviliðsstjórinn á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutverk almannavarnanefndar er tvískipt, annars vegar utan aðgerða og hins vegar í aðgerðum.

Hlutverk utan aðgerða er:

 • að samræma áhættumat sveitarfélaga fyrir allt svæðið og sjá til þess að það sé endurskoðað reglulega
 • að móta stefnu sem byggð er á áhættumatinu varðandi búnaðarmál og viðbragðsáætlanir

Hlutverk í aðgerðum er:

 • að fjalla um aðgerðir með langtímamarkmið í huga á meðan aðgerðastjórn er að bregðast við þegar orðnum hlutum eða fyrirsjáanlegum á næstu klukkustundum
 • að taka ákvarðanir sem bregða verulega út af fyrirframgerðum viðbragðsáætlunum
 • að taka ákvarðanir sem leiða til hugsanlegra fjárútláta eða sem valda röskun eða óþægindum fyrir íbúana, t.d. um rýmingu stærri svæða í lengri tíma

Aðgerðarstjórn

Aðgerðastjórn starfar í umboði almannavarnanefndarinnar og hlutverk hennar utan aðgerða er:

 • að vinna viðbragðs- og aðgerðaáætlanir sem hún leggur fyrir framkvæmdaráð
 • að halda æfingar, m.a. fyrir viðbragðsaðila
 • að skipuleggja störf aðgerðastjórnar í stjórnstöð
 • að skipuleggja störf stoðdeildar í stjórnstöð
 • að samræma aðgerðir vegna stærri uppákomu á svæðinu

Hlutverk aðgerðastjórnar í aðgerðum er:

 • að samræma aðgerðir og sjá um forgangsröðun þeirra og eftirfylgni
 • að stjórna flutningi hjálparliðs og búnaðar um svæðið eftir því sem hjálparbeiðnir berast
 • að skipa vettvangsstjóra ef fleiri eru en einn og sjá um öll samskipti við þá
 • að sjá um samskipti við Almannavarnadeild ríkislögreglustjóravegna aðgerða á svæðinu
 • að sjá um alla skýrslugerð vegna heildaraðgerða
 • að afla upplýsinga frá öðrum aðilum, t.d. veðurstofu og vísindastofnunum
 • að koma tilkynningum til fjölmiðla og aðstandenda ef á þarf að halda í samráði við almannavarnanefndina

Í aðgerðastjórn eru skipaðir fulltrúar frá öllum viðbragðsaðilum, þ.e. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, framkvæmda- og eignasviði Reykjavíkurborgar, fulltrúi sveitarfélaganna Landspítala, fulltrúi heilbrigðisþjónustunnar, svæðisstjórn björgunarsveita á svæði 1 og Rauða krossi Íslands á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess getur aðgerðastjórn kallað til sín fleiri aðila eftir umfangi og eðli atburða hverju sinni.

Hlutverk SHS

Hlutverk slökkviliðsins í almannavarnakerfinu er fjölþætt. Því er ætlað að leiða stjórnun og útfærslu björgunaraðgerða ásamt því að taka þátt í aðgerðastjórn. Meðal verkefna liðsins eru björgun úr rústum, slökkvistarf og aðhlynning og flutningur slasaðra. Í þessu skyni hefur slökkviliðið yfir að ráða góðum búnaði og sérþjálfuðum starfsmönnum.

Aðstoð SHS hefur ekki verið bundin við atburði sem verða á starfssvæði þess. Þannig fóru fjölmargir starfsmenn slökkviliðsins til björgunarstarfa á Vestfjörðum þegar snjóflóð féllu á Súðavík og Flateyri árið 1995 og voru jafnframt kallaðir út þegar Eyjafjallajökull gaus og gegndu þar mikilvægu hlutverki við björgunarstörfin.