Mannauður og menntun

Lögð er áhersla á að starfsandinn innan SHS sé góður og að starfsumhverfið sé jákvætt og hvetjandi. Starfsmenn eru félagar og vinir og hvatt er til samkenndar, umburðarlyndis og hjálpsemi. Starfsmönnum er veitt frelsi til frumkvæðis, byggt á þekkingu þeirra, þjálfun og reynslu, og þannig taka þeir virkan þátt í að uppfylla markmið SHS um fyrstu viðbrögð og forvarnir til að vernda líf, heilsu, umhverfi og eignir borgarbúa. Segja má því að það sé valinn maður í hverju rúmi.

Það er mjög krefjandi að vinna við slökkvistarf og sjúkraflutninga og þess vegna eru gerðar miklar kröfur til starfsmanna hvað varðar þekkingu og andlegan og líkamlegan styrk. Verkefnin eru misjöfn, bæði lítil og stór, en ávallt er gætt ýtrasta öryggis, sama hver vettvangurinn er, því lítil atvik geta auðveldlega undið uppá sig og orðið stór viðfangsefni. Eldur er t.d. alltaf varasamur hver sem stærð hans er og margt getur gerst á 12 tíma vakt. Endurmenntun og þjálfun er því nauðsynlegur hluti af starfinu okkar.

Menntun slökkviliðsmanna er bæði fólgin í bóklegu námi og verklegri starfsþjálfun. Allir starfsmenn varðliðsins fá þjálfun í bæði slökkvistarfi og sjúkraflutningum og þurfa að geta sinnt hvoru tveggja. Þeir sem ráðnir eru til starfa sem slökkviliðsmenn þurfa samkvæmt reglugerð 792/2001 að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

 1. Hafa góða líkamsburði.
 2. Vera andlega og líkamlega heilbrigðir, reglusamir og háttvísir.
 3. Hafa góða sjón og heyrn, rétta litaskynjun og vera ekki haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.
 4. Hafa aukin ökuréttindi til að stjórna a) vörubifreið og b) leigubifreið.
 5. Hafa lokið iðnmenntun sem nýtist í starfi slökkviliðsmanna eða sambærilega menntun og reynslu.

Nám fyrir slökkviliðsmenn að aðalstarfi skiptist í eftirfarandi hluta:

 1. Fornám: Nýliði skal ljúka 80 kennslustunda fornámi og hafa að lágmarki sex mánaða starfsreynslu áður en hann hefur störf sem atvinnuslökkviliðsmaður. Fornámið er í umsjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs en Brunamálaskólinn lætur slökkviliði í hendur gögn vegna fornáms svo sem námslýsingu, kennsluefni og próf. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til starfa sem byrjandi í atvinnuslökkviliði.
 2. Atvinnuslökkviliðsmaður: Námið fyrir atvinnuslökkviliðsmenn er 540 kennslustundir og er í umsjá Mannvirkjastofnunar.  Þátttakendur skulu hafa lokið fornámi fyrir slökkviliðsmenn og miðað skal við að þeir hafi starfað í atvinnuslökkviliði í sex mánuði. Námi skal lokið innan þriggja ára frá upphafi starfs. Að loknu námi hljóta menn löggildingu sem slökkviliðsmenn og skal nemandinn vera hæfur til almennra slökkvistarfa, reykköfunar, björgunarstarfa og viðbragða við mengunar- og eiturefnaslysum. Einnig eru starfsmenn innan liðsins sem hafa hlotið menntun slökkviliðsmanna frá björgunarskólanum í Sandö í Svíþjóð, sem er 14 vikna nám.
 3. Stjórnandi: Nám fyrir stjórnendur innan slökkviliðanna er 120 kennslustundir. Þátttakendur skulu hafa lokið námi sem atvinnuslökkviliðsmenn. Námið er ætlað þeim sem vinna við stjórnun innan atvinnuslökkviliða, svo sem slökkviliðsstjórar og vaktstjórar. Að loknu námi skal nemandi vera hæfur til stjórnunar m.a. á útkallsstað og í starfsstöð, annast skýrslugerð, kennslu og þjálfun og hafa þekkingu á lögum er varða starfssvið hans. Nám fyrir slökkviliðsstjóra skal, auk framangreinds, fela í sér að lokið hafi verið við nám sem eldvarnaeftirlitsmaður I og II.Allmargir starfsmenn hafa tekið stjórnunarnám sem haldið er í samvinnu við skólann í Sandö og tekur tæpar þrjár vikur og nokkrir hafa hlotið svokallaða “brandförmän” menntun þaðan sem tekur 12 vikur. Svo hafa nokkrir setið vikulangt vettvangsstjóranámskeið almannavarna.
 4. Endurmenntun. Atvinnuslökkviliðsmenn skulu jafnframt sækja a.m.k. eitt endumenntunarnámskeið viðurkennt af skólaráði á þriggja ára tímabili. Hafi slökkviliðsmaður sótt önnur námskeið getur hann sótt um til skólaráðs að fá það metið sem endurmenntunarnámskeið.

Endurmenntun

Allir starfsmenn SHS hafa lokið 52 stunda endurmenntun; námskeiði í yfirtendrun, í vinnuferlum reykkafara, í eiturefnum og meðferð þeirra, í skipulagi á vettvangi og námskeiði í meðferð og notkun hitamyndavéla. Allir þeir sem hlotið hafa löggildingu sem slökkviliðsmenn hafa einnig lokið námskeiði um vinnuvélar.

Auk hinna almennu skilyrða um menntun og hæfni hefur fjöldi starfsmanna bætt við sig menntun og þjálfun, bæði innanlands og utan, til margvíslegra annarra björgunarstarfa eða til að sinna eldvarnaeftirliti. Sem dæmi má nefna námskeið slökkviliðsmanna í björgunarskólum í Svíþjóð og bráðatækninám í Bandaríkjunum. SHS hefur lagt  mikinn metnað í menntun og endurmenntun sjúkraflutningamanna og sjúkraflutningamönnum með bráðatæknimenntun hefur fjölgað jafnt og þétt. Með þessari virku endurmenntun getur einn og sami maðurinn bæði verið slökkviliðs- og sjúkraflutningamaður og líka kafari, björgunarmaður í óbyggðum, fyrirlesari, eftirlitsmaður o.s.frv. Þannig er ákaflega hagkvæmt fyrir samfélagið að þjálfa eitt samhent lið til þess að sinna öllum þessum verkefnum því þá er hægt að samnýta starfsfólk við mismunandi tækifæri og ólíkar aðstæður. Í þessu má segja að segja að helstu verðmæti SHS séu fólgin.

Auk þessarar formlegu menntunar og endurmenntunar eru gerðar miklar kröfur til slökkviliðsmanna um gott andlegt og líkamlegt ástand. Æfingar og líkamsþjálfun eru því hluti af starfinu og starfsmenn æfa á hverri vakt ásamt því að gangast árlega undir læknisskoðun, þrek- og styrktarpróf. Loks þurfa menn að hafa hæfni í samskiptum og sýna bæði frumkvæði og greiningarhæfni undir álagi. Markviss og skipulögð þjálfun stuðlar þannig að því að búa menn undir krefjandi og fjölbreytt verkefni. Menn þurfa ekki endilega að vera tröll að burðum en þeir þurfa að hafa afl, þol og andlegt jafnvægi til að geta bjargað sjálfum sér og öðrum við erfiðar aðstæður.

Hlutastarfandi slökkviliðsmenn

Slökkviliðsmenn sem gegna hlutastarfi eiga að hljóta menntun í samræmi við þá þjónustu sem slökkvilið skulu veita samkvæmt brunavarnaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Námið skiptist í fjóra hluta auk endurmenntunar.

 1. Fornám: Nýliðar skulu ljúka að lágmarki 20 kennslustunda fornámi áður en þeir hefja störf sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn. Fornámið er í umsjón og á ábyrgð viðkomandi slökkviliðs en Brunamálaskólinn lætur slökkviliði í hendur gögn vegna fornáms, svo sem námslýsingu, kennsluefni og próf. Að loknu námi skal nemandinn vera hæfur til starfa sem byrjandi í hlutastarfandi slökkviliði.
 2. Námskeið: Brunamálaskólinn veitir kennslu í fjórum hlutanámskeiðum og skulu hlutastarfandi slökkviliðsmenn sækja þau námskeið sem falla að því þjónustustigi sem sveitarfélagið hefur ákveðið að veita samkvæmt brunavarnaáætlun.Námskeið 1: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til slökkvistarfa utanhúss, til að annast vatnsöflun, reyklosun og dælingu.Námskeið 2: Hér er um að ræða tvö 30 kennslustunda námskeið og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til reykköfunar, hafa þekkingu á þróun innanhússbruna og yfirtendrun.Námskeið 3: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til björgunar fólks úr bílflökum, klippuvinnu og skyndihjálpar við slasaða.Námskeið 4: Námskeiðið er 30 kennslustundir og að því loknu skal nemandi m.a. vera hæfur til að beita réttum viðbrögðum við mengunarslysum og eiturefnaslysum.  Áður en nám er hafið skal viðkomandi hafa lokið námskeiði 2.Séu fleiri en eitt námskeið haldin samfleytt þá styttist heildartími námskeiðsins um 5 kennslustundir fyrir hvert hlutanámskeið.
 3. Stjórnandi: Námið er 30 kennslustundir. Stjórnendur hjá hlutastarfandi liðum geta sótt nám sem stjórnendur fyrir atvinnumenn, enda hafi þeir lokið fullu námi sem hlutastarfandi slökkviliðsmenn.
 4. Slökkviliðsstjóri: Námið er 30 kennslustundir.

Sjúkraflutningamenn

Hjá SHS er mikið kapp lagt á menntun í sjúkraflutningum til þess að kunnátta og hæfni starfsmanna sé eins góð og mögulegt er hverju sinni. Menntun sjúkraflutningamanna hjá SHS er fjórþætt:

 • Grunnmenntun, námskeið haldið af Sjúkraflutningaskólanum.
 • Framhaldsnám í sjúkraflutningum, svokallað neyðarflutninganám, haldið af Sjúkraflutningaskólanum.
 • Sérmenntun sem bráðatæknir, Paramedic. Það er nám á háskólastigi og telur um 30 einingar í bóklegum tímum, 2,5 einingar í verklegum tímum og 15 einingar í starfsþjálfun á kennslusjúkrahúsi. Námið fer fram í Pittsburgh í Bandaríkjunum.
 • Árleg sí- og endurmenntun, auk þess sem boðið er upp á ýmis styttri sérnámskeið sem fjalla þá um ákveðinn þátt í bráðaþjónustunni.

Allir starfsmenn liðsins fara í grunnnám sjúkraflutninga (EMT-B) um leið og þeir eru ráðnir til starfa hafi þeir ekki lokið því áður. Eftir námið geta þeir hafið störf á sjúkrabifreið með reyndari sjúkraflutningamanni en þurfa svo að ljúka framhaldsnámi (EMT-I) eftir um þriggja ára starf og þjálfun.

Nánari upplýsingar um menntun sjúkraflutningamanna er að finna á heimasíðum Sjúkraflutningaskólans og Center of Emergency Medicine, Pittsburgh.

Eldvarnaeftirlitsmenn

Menntun starfsmanna eldvarnaeftirlits skal vera í samræmi við þá þjónustu sem slökkvilið skal veita samkvæmt brunavarnaáætlun viðkomandi sveitarfélags. Allir sem sinna eldvarnaeftirliti þurfa að hafa lokið grunnnámi.

Námið skiptist í þrjá hluta:

 1. Eldvarnaeftirlitsmaður I: Grunnnám fyrir eldvarnaeftirlitsmenn þannig að þeir geti unnið við almennt eldvarnaeftirlit. Námið er 70 kennslustundir.
 2. Eldvarnaeftirlitsmaður II: Framhaldsnám fyrir eldvarnaeftirlitsmenn þannig að þeir geti starfað sjálfstætt að sérhæfðu eldvarnaeftirliti svo sem að annast lokaúttektir. Námið er 30 kennslustundir.
 3. Eldvarnaeftirlitsmaður III: Framhaldsnám fyrir þá sem stjórna og bera ábyrgð á eldvarnaeftirliti sveitarfélaganna. Námið er 30 kennslustundir.

Hjá SHS starfa í kringum 150 manns, ýmist á forvarnasviði, viðbúnaðarsviði, aðgerðasviði eða í stoðeiningum. Karlmenn eru 96% starfsmanna og meðalstarfsaldur þeirra er 11,5 ár (meðalaldur er 43 ár). Starfsmannaveltan er lítil og starfsfólkið því með góða þekkingu, þjálfun og reynslu til að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni.