Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) er ekki að leita að fólki í augnablikinu en undanfarin ár hafa verið ráðnir starfsmenn í sumarafleysingar til að starfa á tímabilinu maí til september. Sumarfólk er eingöngu ráðið í sjúkraflutninga (ekki slökkviþáttinn) og þá er gerð krafa um að viðkomandi hafi sjúkraflutningaréttindi við upphaf starfs til þess að geta sinnt sjúkraflutningum. Ef við auglýsum eftir sumarfólki er það yfirleitt í byrjun árss.

Þegar ráðið er í framtíðarstörf innan slökkviliðsins er ferlið mun ítarlegra og lengra. Þá er ekki gerð krafa um að umsækjendur hafi sjúkraflutningaréttindi eða réttindi sem slökkviliðsmaður heldur fá þeir u.þ.b. 9 vikna þjálfun í grunnnámi sjúkraflutninga (EMT-B) og fornámi vegna slökkvistarfa hjá slökkviliðinu áður en þeir fara inn á vaktir og hefja formlega störf. Þeir þurfa þó sjálfir að ná sér í meirapróf á sinn kostnað áður en þeir koma til okkar í þjálfun. Reynsluráðning er sex mánuðir og miðast við upphaf þjálfunar.

Allir starfsmenn okkar verða að vera reiðubúnir að vinna á vöktum, en vaktakerfið byggist á 8 og 12 tíma vöktum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar.

Við erum að leita að einstaklingum sem vilja láta gott af sér leiða og hafa áhuga á að tilheyra öflugu liði sem hefur það hlutverk að sinna útkallsþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Við viljum gjarnan sjá fleiri konur í liðinu og hvetjum þær því til að sækja um.

Ef þú hefur áhuga á að starfa hjá SHS máttu gjarnan fylla út atvinnuumsókn neðst á þessari síðu og senda ferilskrá í viðhengi. Þegar við svo auglýsum eftir starfsfólki þarftu að bæta við þeim fylgigögnum sem óskað er eftir í auglýsingunni (mynd, ljósrit af skírteinum og frumriti af læknisvottorði, sakavottorði og ökuferilskrái) en þau gögn þurfa ekki að berast okkur fyrr en við auglýsum.

Ef spurningar vakna má hafa samband við Ingibjörgu Óðinsdóttur mannauðsstjóra (ingibjorgo@shs.is).

Umsóknarferlið

Hér fyrir neðan eru ítarlegar upplýsingar um hæfniskröfur og umsóknarferlið í heild sinni, bæði í framtíðarstarf og sumarstarf. 

Hæfniskröfur í framtíðarstarf:

 • Umsækjendur skulu hafa náð 21 árs aldri.
 • Hafa lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi.
 • Hafa aukin ökuréttindi (C-flokkur).
 • Mjög góð íslenskukunnátta skilyrði (bæði tal- og ritmál).
 • Færni í samskiptum, sjálfstæð vinnubrögð og geta til að vinna undir álagi.
 • Vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi, hafa eðlilega sjón, heyrn og limaburð, hafa rétta litaskynjun og ekki vera haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.
 • Almenn reglusemi og háttvísi áskilin.

Hæfniskröfur í sumarstarf:

 • Hafa lokið að lágmarki 60 ein. á framhaldsskólastigi (æskilegt að hafa lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi sem eru menntunarskilyrði til framtíðarstarfa)
 • Hafa réttindi til sjúkraflutninga (EMT-B) við upphaf starfs.
 • Mjög góð íslenskukunnátta skilyrði (bæði tal- og ritmál).
 • Færni í samskiptum, sjálfstæð vinnubrögð og geta til að vinna undir álagi.
 • Vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi, hafa eðlilega sjón, heyrn og limaburð, hafa rétta litaskynjun og ekki vera haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.
 • Almenn reglusemi og háttvísi áskilin.

Öllum umsóknum þarf að fylgja rafrænt eintak af:

 • Prófskírteini sem sýnir að viðkomandi hafi lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi.
 • Ökuskírteini; ljósrit af báðum hliðum ökuskírteinis sem sýnir ökuréttindi (bakhlið) og mynd af viðkomandi (framhlið).
 • Nýleg og góð/skýr passamynd.
 • Ferilskrá.

Öllum umsóknum þarf að fylgja frumrit* (pappírseintak) af*:

 • Læknisvottorð sem staðfestir almennt heilbrigði umsækjanda. Má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt að nálgast hjá heimilislækni.
 • Sakavottorð þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt er að nálgast það hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Hlíðarsmára 1 í Kópavogi, ef umsækjendur búa á höfuðborgarsvæðinu, annars hjá viðkomandi sýslumanni.
 • Ökuferilskrá (yfirlit yfir punktastöðu viðkomandi) þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldri en 3 mánaða. Hægt er að fá stimplaða útprentun á ökuferilskrá hjá lögreglunni í því umdæmi sem viðkomandi á lögheimili. Fyrir höfuðborgarsvæðið er það Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 113.

*ATH! ekki þarf að senda þessi fylgigögn nema þegar við höfum auglýst sérstaklega eftir starfsfólki.

 

Inntökuferlið

Inntökuprófin í framtíðarstarf felast í: hlaupaprófi, könnun á lofthræðslu og innilokunarkennd, skriflegu prófi, þrek- og styrktarprófi, sundprófi, akstursprófi, læknisskoðun og viðtali. 

Inntökupróf í sumarstarf felast í: þrekpróf, læknisskoðun og viðtal.

Ekki er boðið uppá nein sjúkrapróf.

 

Hlaupapróf

Hlaupa þarf 3 km vegalengd á innan við 13:15 mínútum (bæði konur og karlar) til að ná prófinu. Þeir sem ekki ná að hlaupa vegalengdina á þeim tíma komast ekki áfram í inntökuferlinu. Hægt verður að taka hlaupaprófið þrisvar sinnum (sama prófið) og eru umsækjendur hvattir til að nýta sér þau tækifæri þar til þeir hafa náð prófinu. Um leið og þeir hafa náð hlaupinu eru þeir komnir inn í inntökuferlið og verða boðaðir í næstu inntökupróf. 

Umsækjendur mæta í hlaupafatnaði og hlaupa í hollum á hlaupabrautinni (innanhúss) í Kaplakrika þar sem tekinn er tími á hverjum og einum. Það þurfa því ekki allir að mæta um leið og hlaupið hefst en í síðasta lagi 30 mín. áður en því lýkur. Húsið verður opnað 30 mín. áður en fyrsta hollið hleypur. Hægt verður að hita upp á staðnum. Ath.! Ekki er leyfilegt að mæta með aðstoðarmann, prófdómarar sjá um að hvetja fólk áfram.

Styrktarpróf

 

 • Réttstöðulyftur með réttstöðugrind, 65 kg þyngd, 10 endurtekningar.
 • Liggjandi upphífingar með 20sm upphækkun undir hælum, 7 endurtekningar.
 • Armbeyjur í 12 kg vesti, 7 endurtekningar.
 • Planki á olnboga og tám, 1 mínúta.
 • Dúkkuburður (70 kg dúkka) með slökkviliðstaki, 40m vegalengd á undir 1 mín.

Þolpróf

Göngupróf á bretti. Umsækjendur þurfa að ganga í 8 mínútur á göngubretti klæddir í eldgalla og með 12 kg kút á bakinu (samfellt vegur gallinn með kút í kringum 23 kg.) Ganga þarf í 1 mínútu í 4% halla, 1 mínútu í 7% halla og 6 mínútur í 12% halla. Hraðinn er 5,6.

Innilokunarkennd

Umsækjendur eru prófaðir í ímyndaðri reykköfun til að kanna hvort þeir þjáist af innilokunarkennd. Þeir eru með reykköfunartæki á bakinu og leysa ýmsar þrautir á æfingabraut innandyra með bundið fyrir augu. Nauðsynlegt að mæta í þægilegum fatnaði sem má skemmast, t.d. gömlum íþróttagalla (síðbuxum og langermabol).

Lofthræðsla

Kannað er hvort umsækjendur geti fylgt fyrirmælum og bregðist rétt við þegar þeir eru í mikilli lofthæð á körfubíl slökkviliðsins.

Sundpróf

Sundprófið felst í 200m bringusundi, 200m skriðsundi, 25m björgunarsundi og einnig eru köfunaræfingar í lauginni. Umsækjendur þreyta prófið í hollum en eru metnir einstaklingsbundið.

Skriflegt próf

Skriflegt próf er lagt fyrir umsækjendur til að kanna almenna þekkingu. Prófið tekur á bilinu 30-60 mínútur og fer fram í slökkvistöðinni í Skógarhlíð 14.

Aksturspróf

Ökukennarar prófa umsækjendur í almennum akstri í u.þ.b. 45 mín. þar sem aksturslag, lipurð í umferðinni, reynsla og hæfni er metin, sem og þekking á umferðarreglum.

Læknisviðtal

Umsækjendur fara í viðtal hjá trúnaðarlækni SHS.

Viðtal

Boðað er í viðtöl þegar öllu ferlinu er lokið og gert ráð fyrir 20-30 mínútum í hvert viðtal.

Sækja um starf