Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) auglýsir eftir starfsfólki til að sinna slökkvistarfi og sjúkraflutningum. Umsóknarfrestur er til og með 10. janúar 2021.

SHS er byggðasamlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og er með samning við ríkið um að sinna sjúkraflutningum á svæðinu. Nánari upplýsingar um SHS má finna á heimasíðu SHS undir ,,Um okkur“ og einnig í brunavarnaáætlun. SHS er einnig á Facebook og Instagram.

Gert er ráð fyrir að þau sem verða ráðin hefji störf hjá SHS 8. mars 2021. Þá hefst 12 vikna þjálfun í dagvinnu sem skiptist í tvo meginþætti. Annars vegar grunnnám sjúkraflutninga (EMT-B) á vegum sjúkraflutningaskólans og hins vegar fornám vegna slökkvistarfa sem haldið er af SHS. Að lokinni þjálfun, upp úr miðjum maí, hefst vaktavinnan.  Reynsluráðning er fimm mánuðir og miðast við upphaf þjálfunar í mars.

Allir okkar starfsmenn verða að vera reiðubúnir að vinna á vöktum, en vinnuskipulagið byggist upp á blöndu af 8 og 12 tíma vöktum allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, allan ársins hring.  Rétt er að taka fram að vinna við styttingu vinnuvikunnar mun hefjast í upphafi árs 2021 og getur leitt af sér einhverjar breytingar á vinnuskipulagi starfsmanna SHS.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenska sveitarfélaga og Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (sjá kjarasamning).

Hér fyrir neðan eru ítarlegar upplýsingar um hæfniskröfur og umsóknarferlið í heild sinni.  Vinsamlega kynnið ykkur þær, en ef spurningar vakna er hægt að hafa samband við Ingibjörgu Óðinsdóttur mannauðsstjóra í síma 528 3122 (ingibjorgo@shs.is) eða Elías Níelsson íþróttaþjálfara SHS í síma 528 3000 (eliasn@shs.is).

Umsóknarfrestur er til og með 10. janúar nk.

Sækið um með því að fylla út umsóknareyðublaðið sem er hér neðst á síðunni og látið öll umbeðin gögn fylgja sem viðhengi með umsókninni (til vara má senda þau í netfangið ingibjorgo@shs.is).

Hæfniskröfur:

 • Umsækjendur skulu hafa náð 21 árs aldri.
 • Fullgilt sveinspróf eða stúdentspróf.
 • Hafa aukin ökuréttindi (C-flokkur)*.
 • Mjög góð íslenskukunnátta skilyrði (bæði tal- og ritmál).
 • Færni í samskiptum, sjálfstæð vinnubrögð og geta til að vinna undir álagi.
 • Vera í góðu andlegu og líkamlegu ástandi, hafa eðlilega sjón, heyrn og limaburð, hafa rétta litaskynjun og ekki vera haldnir lofthræðslu eða innilokunarkennd.
 • Almenn reglusemi og háttvísi áskilin.

*Nægjanlegt er að hafa aukin ökuréttindi (C-flokkur) fyrir miðjan maí 2021, en kostur að flýta því eins og hægt er svo það skarist ekki við þjálfun. Umsækjendur geta því sótt slíkt námskeið þegar ráðning liggur fyrir, en gera það í eigin tíma og á sinn kostnað. SHS mun þó reyna að aðstoða þá sem þurfa við að komast á slíkt námskeið og fá afslátt af námskeiðsgjöldum.

 

Öllum umsóknum þarf að fylgja rafrænt eintak af:

 • Prófskírteini sem sýnir að viðkomandi hafi lokið sveinsprófi eða stúdentsprófi.
 • Ökuskírteini; ljósrit af báðum hliðum ökuskírteinis sem sýnir ökuréttindi (bakhlið) og mynd af viðkomandi (framhlið).
 • Nýleg og góð/skýr passamynd.
 • Ferilskrá.
 • Læknisvottorð* sem staðfestir almennt heilbrigði umsækjanda. Má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt að nálgast hjá heimilislækni.
 • Sakavottorð* þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldra en 3 mánaða. Hægt er að nálgast það hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Hlíðarsmára 1 í Kópavogi, ef umsækjendur búa á höfuðborgarsvæðinu, annars hjá viðkomandi sýslumanni.
 • Ökuferilskrá* (yfirlit yfir punktastöðu viðkomandi) þarf að fylgja öllum umsóknum og má ekki vera eldri en 3 mánaða. Hægt er að fá stimplaða útprentun á ökuferilskrá hjá lögreglunni í því umdæmi sem viðkomandi á lögheimili. Fyrir höfuðborgarsvæðið er það Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 113.

ATH! *Þessi fylgigögn meiga ekki vera eldri en 3 mánaða.

 

Inntökuferlið

Inntökuprófin í framtíðarstarf felast í: hlaupaprófi, könnun á lofthræðslu og innilokunarkennd, skriflegu prófi, þrek- og styrktarprófi, sundprófi, akstursprófi, læknisskoðun og viðtali. Ekki er boðið uppá nein sjúkrapróf.

Þeir sem ná ekki hlaupaprófinu fara ekki áfram í ferlinu. Sama gildir um önnur inntökupróf, þ.e. gert ráð fyrir að umsækjendum fækki eftir því sem líður á ferlið ef þeir ná ekki prófunum.

Dagatal fyrir inntökuferlið í janúar 2021 (með fyrirvara um að gera þurfi aðrar ráðstafanir vegna Covid):

Miðvikudaginn 6. janúar:                 Hlaupapróf nr. 1 (kl. 20:00-23:00).

Sunnudaginn 10. janúar:                   Hlaupapróf nr. 2. (kl. 10:00-15:00).

Miðvikudaginn  13. janúar:               Hlaupapróf nr. 3 (kl. 20:00-23:00)

Sunnudaginn 17. janúar:                    Hlaupapróf nr. 4. (kl. 10:00-14:00).

Þriðjudaginn 19. janúar:                    Skriflegt próf í Kelduskóla í Grafarvogi

Miðvikudaginn 20. janúar:                Innilokun / lofthr. / styrktar- og þolpróf (fyrra holl)

Fimmtudaginn 21. janúar:                Innilokun / lofthr. / styrktar- og þolpróf (seinna holl)

Föstudaginn 22. janúar:                     Sundpróf kl. 08:00-14:00.

Dagana 23.-26. janúar:                         Ökupróf (45 mín.).

Dagana 27.-29. janúar:                        Viðtöl (20-30 mín.)

Þriðjudagur 2. febrúar:                       Læknisviðtal (15 mín.).

Föstudagur 5. febrúar:                        Niðurstaða ráðninga liggur fyrir.

Fimmtudagur 11. febrúar:                  Nýliðakynning (ef Covid leyfir).

Mánudagur 8. mars:                             Þjálfun hefst.

 

Hlaupapróf

Hlaupa þarf 3 km vegalengd á innan við 13:15 mínútum (bæði konur og karlar) til að ná prófinu. Þeir sem ekki ná að hlaupa vegalengdina á þeim tíma komast ekki áfram í inntökuferlinu. Boðið er upp á hlaupaprófið 4 sinnum (sama prófið á mismunandi dögum) og eru umsækjendur hvattir til að nýta sér þau tækifæri þar til þeir hafa náð hlaupinu. Vinsamlega sendið tölvupóst á ingibjorgo@shs.is með ósk um hlaupadag og þá fáið þið sendan tíma í hlaupið (ráðstafanir vegna Covid). Ekki er boðið upp á nein sjúkrapróf.

Umsækjendur mæta í hlaupafatnaði og hlaupa í hollum á hlaupabrautinni (innanhúss) í Kaplakrika þar sem tekinn er tími á hverjum og einum. Hægt verður að hita upp á staðnum. Þeir sem ná hlaupaprófinu eru sjálfkrafa komnir inn í inntökuferlið og verða boðaðir í næstu inntökupróf. 

Ath.! Ekki er leyfilegt að mæta með aðstoðarmann, prófdómarar sjá um að hvetja fólk áfram.

Styrktarpróf

 • Réttstöðulyftur með réttstöðugrind, 65 kg þyngd, 10 endurtekningar.
 • Liggjandi upphífingar með 20sm upphækkun undir hælum, 7 endurtekningar.
 • Armbeyjur í 12 kg vesti, 7 endurtekningar.
 • Planki á olnboga og tám, 1 mínúta.
 • Dúkkuburður (70 kg dúkka) með slökkviliðstaki, 40m vegalengd á undir 1 mín.

Þolpróf

Göngupróf á bretti. Umsækjendur þurfa að ganga í 8 mínútur á göngubretti klæddir í eldgalla og með 12 kg kút á bakinu (samfellt vegur gallinn með kút í kringum 23 kg.) Ganga þarf í 1 mínútu í 4% halla, 1 mínútu í 7% halla og 6 mínútur í 12% halla. Hraðinn er 5,6.

Innilokunarkennd

Umsækjendur eru prófaðir í ímyndaðri reykköfun til að kanna hvort þeir þjáist af innilokunarkennd. Þeir eru með reykköfunartæki á bakinu og leysa ýmsar þrautir á æfingabraut innandyra með bundið fyrir augu. Nauðsynlegt að mæta í þægilegum fatnaði sem má skemmast, t.d. gömlum íþróttagalla (síðbuxum og langermabol).

Lofthræðsla

Kannað er hvort umsækjendur geti fylgt fyrirmælum og bregðist rétt við þegar þeir eru í mikilli lofthæð á körfubíl slökkviliðsins.

Sundpróf

Sundprófið felst í 200m bringusundi, 200m skriðsundi, 25m björgunarsundi og einnig eru köfunaræfingar í lauginni. Umsækjendur þreyta prófið í hollum en eru metnir einstaklingsbundið.

Skriflegt próf

Skriflegt próf er lagt fyrir umsækjendur til að kanna almenna þekkingu. Prófið tekur á bilinu 30-60 mínútur.

Aksturspróf

Ökukennarar prófa umsækjendur í almennum akstri í u.þ.b. 45 mín. þar sem aksturslag, lipurð í umferðinni, reynsla og hæfni er metin, sem og þekking á umferðarreglum.

Viðtal

Þeir sem ná öllum inntökuprófunum eru boðaðir í viðtal, gera má ráð fyrir 20-30 mín. í hvert viðtal.

Læknisviðtal

Þeir sem til stendur að ráða eru boðaðir í viðtal hjá trúnaðarlækni SHS.

 

Sækja um starf